Gyða Hrönn Einarsdóttir lífeindafræðingur MS hefur verið ráðin í stöðu sérfræðings í klínískri lífefnafræði á rannsóknarkjarna Landspítala.
Þetta er í fyrsta sinn sem ráðið er í stöðu sérfræðings meðal lífeindafræðinga.
Landspítali er stærsti vinnustaður lífeindafræðinga og rannsóknarkjarni stærsta einstaka deild sem lífeindafræðingar starfa á. Rannsóknarkjarni gegnir veigamiklu hlutverki í námi lífeindafræðinga hérlendis sem kennslurannsóknarstofa í tveimur viðamiklum sérgreinum, blóðmeinafræði og klínískri lífefnafræði en heildarstarfsmannafjöldi á deildinni er um 160.
Lífeindafræðinemendur frá læknadeild Háskóla Íslands koma í verklega hluta námsins bæði á haustönn og vorönn auk skiptinema sem oft eru um lengri eða skemmti tíma.
Því skipta góð tengsl við Háskóla Íslands miklu máli svo verknámið gangi vel. Gyða Hrönn hefur undanfarin ár verið í hlutastarfi í HÍ við kennslu og umsjón námskeiða í klínískri lífefnafræði en ráðning hennar í starf sérfræðings á rannsóknarkjarna er liður í því að efla frekar rannsóknarkjarna á sviði kennslu og vísinda. Það er því stefnt að fjölgun nema í diplóma- og/eða meistaraverkefni sem þykir nauðsynlegt til framtíðar til þess að skapa gott og öflugt starfs- og þekkingarumhverfi þar sem starfsmenn blómstra og stuðlað er að virkri sí- og endurmenntun.