Í leiðbeiningum um líknarmeðferð, sem voru fyrst gefnar út 2009 og í endurskoðaðri útgáfu 2017, er tekið mið af alþjóðlegum leiðbeiningum og líknarmeðferð skilgreind sem meðferð, frekar en meðferðarstig,sem nær til alls sjúkdómsferlisins frá greiningu lífsógnandi sjúkdóma. Skilgreind eru þrjú meðferðarstig sem eru full meðferð (FM), full meðferð að endurlífgun með eða án annarra takmarkana (FME) og lífslokameðferð (LLM).
Við endurskoðun þessara leiðbeininga var tekið mið af niðurstöðum könnunar meðal hjúkrunarfræðinga (n= 231) og lækna (n=106) á klínískum sviðum Landspítala árið 2016 sem komu með ýmsar ábendingar. Óskir komu fram um að hafa hagnýtari upplýsingar um meðferð einkenna og samtal um meðferðarmarkmið. Fram kom að 69% hjúkrunarfræðinga og 47% lækna þekktu til klínískra leiðbeininga um líknarmeðferð á Landspítala og af þeim töldu 83% hjúkrunarfræðinga og 76% lækna þær gagnlegar.
Helstu breytingar frá árinu 2009 fela í sér að lögð er enn frekari áhersla á líknarmeðferð fyrr í sjúkdómsferlinu, meiri áhersla er á samtalið um framtíðarmeðferð og meðferðarmarkmið, þarfir mismunandi sjúklingahópa og hagnýtari leiðbeiningar um meðferð einkenna. Í þeim tilgangi var fengið leyfi frá National Health Service (NHS) í Skotlandi til að þýða og staðfæra leiðbeiningar um meðferð á algengum einkennum og bráðum vandamálum hjá sjúklingum í líknar- og lífslokameðferð. Báðar þessar leiðbeiningar eru aðgengilegar á vef Landspítala.
Á Íslandi heldur einstaklingum með langvinna og alvarlega lífsógnandi sjúkdóma áfram að fjölga vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og framfara í tækni og meðferð. Árið 2015 voru lífslíkur karla 81 ár og kvenna 83,6 ár og algengustu dánarorsakirnar krabbamein, hjartasjúkdómar og langvinnir lungnasjúkdómar. Líknarmeðferð gegnir lykilhlutverki við að mæta þörfum og bæta lífsgæði þessara sjúklinga. Á alþjóðavísu er í vaxandi mæli lögð áhersla á að efla líknarmeðferð strax frá sjúkdómsgreiningu. Þannig hefur líknarmeðferð breyst frá því að vera eingöngu meðferð sem beitt er við lífslok í meðferð sem er veitt í öllu sjúkdómsferlinu og hefst við greiningu á lífsógnandi og alvarlegum sjúkdómi. Líknarmeðferð er hægt að veita á öllum þjónustustigum, hún byggir á fjölfaglegu samstarfi og nær til margra sjúklingahópa þar sem bæði sjúklingurinn og fjölskylda hans er meðferðareiningin. Lögð er áhersla á meðferð verkja og annarra einkenna, góð samskipti, virka þátttöku sjúklings og hans nánustu í ákvarðanatöku og samræmda þjónustu allt sjúkdómsferlið.
Klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð