Kæra samstarfsfólk!
Eitt helsta einkennið á aðþrengdri opinberri heilbrigðisþjónustu á Íslandi er hinn títtnefndi “fráflæðisvandi” á Landspítala, sem nær væri að kalla útskriftavanda. Sá vandi snýst um að einstaklingar sem fengið hafa þjónustu á Landspítala, geta ekki snúið heim aftur án verulegrar aðstoðar heima við, sem ekki býðst. Þessir einstaklingar mega því búa við það að bíða von úr viti á Landspítala við misjafan kost, eftir sæmandi þjónustu. Afleiðingin getur orðið alvarleg staða hvað varðar þjónustu við aðra sjúklingahópa, unga sem aldna, sem stöðugt streyma á Landspítala. Síðast í gær var staðan sú að bráðalegudeildir voru yfirfullar og nýting spítalans um 114%. Það er ekki góð nýting heldur býður hún hættunni heim, enda gera bráðasjúkrahús ráð fyrir að nýtingin sé 75-85%. Þetta er í sjálfu sér ekki ný staða og við höfum unnið hörðum höndum að því ásamt stjórnvöldum að bregðast við eftir því sem kostur er. Nefna má opnun Vífilstaða, útskriftadeild á Landakoti, rými fyrir aldraða á Vesturlandi, opnun bráðalyflækningadeildar og svo mætti lengi telja. Raunstaðan er þó sú að öll okkar viðleitni nær ekki að halda í við þá auknu þörf sem er fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins og ekki síður við aldraða.
Ein allra stærsta ógnin nú er alvarlegur skortur á hæfu fagfólki til starfa á spítalanum og finnum við fyrir því með vaxandi þunga. Einkum er það skortur á hjúkrunarfræðingum sem er áhyggjuefni og erum við sennilega rétt að byrja að átta okkur á því hvað það raunverulega þýðir - þótt við höfum lengi vitað að þessi staða væri yfirvofandi og verið óþreytandi að minna stjórnvöld á. Það er afar mikilvægt að allir átti sig á því að heilbrigðsþjónusta breytist hratt og kröfur um fagþekkingu vaxa nánast í veldisfalli. Nú þegar er hlutfall hjúkrunarfræðinga í starfsmannaflota spítalans alltof lítill miðað við þá flóknu þjónustu sem hér er veitt og verður ekki bætt með öðrum starfsstéttum umfram það sem þegar er. Þessum mikla vanda verður ekki öðruvísi mætt en með því að fjölga fólki sem menntar sig í hjúkrunarfræði og bæta kjör og aðstæður heilbrigðisstarfsfólks. Við megum engan tíma missa.
Í dag stóð Læknaráð Landspítala fyrir fundi með fulltrúum stjórnmálaflokka sem bjóða fram á landsvísu í kosningum til Alþingis nú í lok mánaðarins. Fulltrúar allra flokka nema Miðflokksins mættu. Sköpuðust skemmtilegar og jafnvel nokkuð heitar umræður undir skörulegri stjórn nýs formanns Læknaráðs, Ebbu Margrétar Magnúsdóttur. Í tilraunaskyni var fundurinn tekinn upp og sendur út beint á Workplace by Facebook og er hægt að nálgast upptökuna hér á þessum nýja lokaða samskiptamiðli Landspítala. Nokkur hundruð manns hafa þegar skoðað útsendinguna og það er gaman að sjá hversu vel okkur gengur að innleiða þessa einföldu og þægilegu lausn sem Workplace er. Einmitt í dag bættist starfsmaður númer 3.000 inn í Workplace (af 5.500) og mun það hlutfall vera í heimsklassa fyrir svo stóran vinnustað.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson