Alþjóðlegur dagur líknarmeðferðar er haldinn hátíðlegur ár hvert annan laugardag í októbermánuði og ber í ár upp á laugardaginn 14. október 2017. Yfirskrift þessa árs er ,,Aðgengi að heilbrigðisþjónustu og líknarmeðferð á alþjóðavísu”. Með henni er lögð áhersla á að vekja almenning, fagfólk og stjórnvöld til vitundar um aðgengi að líknarmeðferð í hverju landi, að jafnræðis sé gætt milli þeirra sem þurfa á meðferðinni að halda og auk þess vakin athygli á kostnaði við meðferð sem getur í mörgum tilfellum verið hindrun fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Minnt er á að ekki megi skilja þau eftir sem þjást vegna langt gengins ólæknandi sjúkdóms og lönd hvött til þess að efla aðgengi að líknarmeðferð.
Nokkur orð um líknarmeðferð
Líknarmeðferð er veitt í þeim tilgangi að bæta líðan og lífsgæði sjúklinga sem eru með lífsógnandi sjúkdóma, t.d. krabbamein, hjarta-, lungna-, tauga-, og nýrnasjúkdóma. Markmiðið er að fyrirbyggja og meðhöndla einkenni og vanlíðan vegna sjúkdóms og sjúkdómsmeðferðar eins snemma og auðið er. Það á einnig við um andlegar, sálrænar og félagslegar afleiðingar veikindanna. Líknarmeðferð er hægt að veita frá greiningu sjúkdóms og samhliða annarri meðferð.
Almenn líknarmeðferð er hluti af almennri heilbrigðisþjónustu. Allir heilbrigðisstarfsmenn eiga að hafa grunnþekkingu á líknarmeðferð. Með sérhæfðri líknarmeðferð er lögð áhersla á að sinna sjúklingum með versnandi sjúkdóma, erfið, fjölþætt og flókin einkenni. Heilbrigðisstarfsmenn sérhæfðrar líknarþjónustu sinna nær eingöngu sjúklingum þar sem megináherslan er á líknarmeðferð.
Á Landspítala veita eftirfarandi þjónustur sérhæfða líknarmeðferð.
Líknardeild í Kópavogi
Líknardeild - legudeild með 12 legurými; 5 daga deild með 3 pláss; 6-8 dagdeildarpláss auk göngudeildar líknarmeðferðar. Deildin er ætluð sjúklingum með alvarlega langt gengna sjúkdóma, erfið, fjölþætt og flókin einkenni og/eða við lífslok. Árið 2016 voru legur 247 og andlát 174. Meðallegutími var 16.6 dagar og rúmanýting 97%. Líknarlæknar deildarinnar veita einnig líknarráðgjöf á göngudeild 11B Hringbraut.
Heimahlynning Landspítala
Heimahlynning, með aðsetur í Kópavogi, veitir sérhæfða hjúkrunar- og læknisþjónustu í heimahúsi allan sólarhringinn. Markmiðið er að gera einstaklingum með lífsógnandi sjúkdóma mögulegt að dvelja heima eins lengi og þeir óska og aðstæður leyfa. Árið 2016 voru um 200 einstaklingar í þjónustunni, 70 einstaklingar á hverjum tíma. Vitjanir voru 4.556 og andlát heima 33. Heimahlynning fagnar 30 ára starfsafmæli á árinu.
Líknarráðgjafateymi
Líknarráðgjafateymi hefur aðsetur við Hringbraut og sinnir ráðgjöf innan og utan Landspítala. Meginhlutverk þess er að vera heilbrigðisstarfsfólki til ráðgjafar við mat og meðferð einkenna sem koma fram hjá sjúklingum með lífsógnandi sjúkdóma, vegna erfiðleika í samskiptum og vegna útskrifta þegar þörf er á sérhæfðri heimaþjónustu eða innlögn á líknardeild. Líknarráðgjafateymið veitir einnig sjúklingum og aðstandendum beina ráðgjöf og stuðning á göngudeild og með símaeftirfylgd. Árið 2016 fékk teymið 290 beiðnir um ráðgjöf, tók á móti sjúklingum í 93 stuðningsviðtöl á göngudeild og samráðs lækna teymisins var leitað í 232 skipti. Líknarráðgjafarteymið fagnar 20 ára starfsafmæli á árinu.