Kæra samstarfsfólk!
Enn á ný sendir almenningur stjórnmálafólki skýr skilaboð um hvaða mál brenna helst á sér. Í könnun sem birtist í Fréttablaðinu í gær kemur í ljós að langflestir telja heilbrigðismálin vera mikilvægust. Ánægjulegt er sömuleiðis að sjá að stuðningur við Hringbrautarverkefnið er góður enda ætti umræða um staðsetningu Landspítala að vera löngu lokið, eftir nærri tveggja áratuga þóf.
Heilbrigðismál eru flókin og ég hef tekið eftir því að í stað þess að ræða um heildarsýn á málaflokkinn skreppur umræðan iðulega í einhverja misáhugaverða afkima og strandar þar. Gott dæmi um þetta er staðsetningarumræðan sem er löngu komin fram yfir síðasta söludag og ég tel að kunni að hafa haft þau áhrif að stjórnmálin hafi að einhverju leyti misst yfirsýn yfir þá flóknu skipulagsheild sem heilbrigðisþjónustan er. Þannig er umræða um alvöru uppbyggingu innviða þjónustunnar í skötulíki og fjármögnunarumræðan ruglingsleg og farmiði beint í skotgrafir stjórnmálaflokka. Þetta er á sama tíma og við verjum töluvert minna hlutfalli landsframleiðslu til heilbrigðismála en önnur norræn lönd. Þetta er líka á sama tíma og samanburður við evrópsk OECD-lönd sýnir að Ísland hefur undanfarin ár vermt botnsætið í hlutfallslegu fé til innviðauppbyggingar í heilbrigðisþjónustu, er töluvert neðar en Rúmenía sem er næstneðst, sbr. mynd í OECD-skýrslu Health at a glance 2016.
Ég hef áður vísað til hinnar „heilögu þrenningar “ sem horfa þarf til í umræðunni hvað Landspítala varðar. Starfsemin okkar hvílir á þremur stoðum og sé ein þeirra veik líður starfsemin öll fyrir. Því dugir ekki að horfa einungis til fjármögnunar rekstrar, þótt það sé nauðsynlegt. Samhliða verður að fjalla um innviðauppbyggingu og ekki hvað síst huga að mönnun. Hvað fjármögnun varðar er framundan myljandi tækifæri fyrir stjórnmálin að tryggja viðunandi rekstrarfé til starfseminnar, nú þegar vel árar, og yrði það í fyrsta sinn í sögu Landspítala. Í öðru lagi verður að byggja upp innviði starfseminnar og skilja hvorki undan eðlilega endurnýjun tækjabúnaðar né viðunandi viðhald og endurnýjun bygginga. Síðast en alls ekki síst er öll umræða um heilbrigðismál marklaus sem ekki tekur á stærstu áskorun samtímans í málaflokknum; mönnun heilbrigðisstétta. Ég vil enn og aftur ítreka mikilvægi þess að sá vandi er ekki framtíðarvandi, við glímum við hann á hverjum degi og búast má við að hann aukist á sama tíma og álag á heilbrigðisþjónustuna eykst með breytingum á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Með breytingum á launakjörum lækna á síðustu misserum hefur staðan á Landspítala hvað þá stétt varðar batnað til muna. Hins vegar eru kjör annarra heilbrigðisstétta áhyggjuefni og má þar nefna m.a. lífeindafræðinga, geislafræðinga og sjúkraliða. Sérstaklega verður að horfa til hjúkrunarfræðinga, sem eru hryggjarstykki í starfsemi hvers sjúkrahúss, sem ein heilbrigðisstétta er læst inni í kjaradómi. Þetta er verulegt áhyggjuefni og við sjáum áhrif þessa á degi hverjum. Hér er verk að vinna.
Birtingarmynd þess hversu flókin og erfið umræða um heilbrigðsmál er, er sú mikla vídd sem er í málaflokknum. Enda þótt við heykjumst ekki á því að sækja fram fyrir starfsemina og benda á það sem betur má fara er Landspítali mögnuð stofnun þar sem kraftaverk eru unnin á degi hverjum. Allt sem við gerum snýr fyrst og síðast að sjúklingunum sem við þjónum. Af því sem við gerum eigum við að vera - og erum afar stolt.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson