Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir ,var kjörin formaður læknaráðs Landspítala á aðalfundi þess 27. september 2017. Á fundinum var Anna Margrét Halldórsdóttir kjörin varaformaður læknaráðs. Formaður stöðunefndar María I. Gunnbjörnsdóttir, formaður fræðslunefndar Ásgerður Sverrisdóttir og formaður valnefndar Birna Guðrún Þórðardóttir. Þetta er í fyrsta sinn sem konur gegna öllum embættum í læknaráði, þ.e. formennsku í stjórn og öllum fastanefndum ráðsins.
Læknaráð Landspítala starfar í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Hlutverk þess er að vera stjórnendum Landspítala til ráðuneytis um læknisfræðileg atriði í rekstri sjúkrahússins. Læknaráð skal vera stjórnendum til ráðuneytis í málum er varða stefnumótun sjúkrahússins, þróun og skipulag, stjórnun og rekstur, samstarf og samhæfingu starfskrafta, þjónustu við sjúklinga, menntun lækna, læknanema og annars starfsliðs og vísindastarf.
Læknaráði og nefndum þess ber að stuðla að gæðum læknisþjónustu á Landspítala þannig að lækningar séu á hverjum tíma í samræmi við lög, þekkingu, viðurkennda reynslu og gæðastaðla. Á sama hátt skal læknaráð stuðla að gæðum og eflingu vísindarannsókna og menntunar lækna, læknanema og annarra heilbrigðisstétta.