Kæra samstarfsfólk!
Landspítali eins og hann er í dag er afurð fjölmargra sameininga heilbrigðisstofnana; Borgarspítala, Landakots, Landspítala og St. Jósefsspítala svo eitthvað sé nefnt. Landspítali er öflugasta heilbrigðisstofnun landsins, spítali allra landsmanna og þjóðarsjúkrahús. Til okkar leitar fólk af öllu landinu (pdf) og við tökum það hlutverk okkar mjög alvarlega. Á sama tíma og við þjónum landsmönnum öllum um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu erum við líka héraðssjúkrahús þeirra sem á höfuðborgarsvæðinu búa. Um landið allt er keðja slíkra héraðs- eða umdæmissjúkrahúsa sem gegna slíku hlutverki gagnvart íbúum á viðkomandi svæðum. Þetta er mikilvægt að hafa í huga og af þessu tilefni er gaman að geta þess að í gær, 28. september, voru einmitt 50 ár frá því að héraðssjúkrahús Reykvíkinga, Borgarspítalinn, tók til starfa. Um þá áhugverðu sögu má fræðast í ágætri grein sem birtist í Læknablaðinu (pdf) á 100 ára afmæli þess. Borgarspítalinn var þó ekki einungis héraðssjúkrahús því þar þróaðist einnig sérhæfðari starfsemi í samræmi við þarfir og nýjungar í heilbrigðisþjónustu.
Sameiningar heilbrigðisstofnana undir nafni Landspítala eru ástæða þess að starfsemin er dreifð og eins og þekkt er fer hún nú fram á 17 stöðum og í um 100 húsum. Ástand þeirra er með ýmsum hætti, eins og oft er rætt, en við höfum síðustu ár unnið þétt með stjórnvöldum að uppbyggingu húsakosts Landspítala við Hringbraut. Mikilvægi sameiningar bráðastarfsemi á einn stað verður ekki ofmetið og því hefur verið ánægjulegt að fylgja þessu máli í höfn. Framundan er opnun sjúkrahótels, bygging meðferðarkjarnans hefst innan skamms og rannsóknarkjarnans í framhaldi af því. Þessi byggingarverkefni eru mikilvægur kjarni Hringbrautarverkefnisins, þess stóra verkefnis að tryggja að öflug starfsemi rúmist rétt í nýju og endurnýjuðu húsnæði. Sú heildarvinna er eðli máls samkvæmt á höndum okkar á Landspítala og hundruð starfsmanna koma að því mikilvæga og skemmtilega verkefni. Framundan eru því afar spennandi tímar á Landspítala.
Haustin eru skemmtilegur og erilsamur tími á Landspítala. Eftir sumarið fer ýmislegt í gang og við kynnum nýjungar. Ein af þeim skemmtilegri, sem að líkindum mun gjörbreyta samskiptum hjá okkur, er innleiðing Workplace. Aðeins hluti starfsmanna hefur aðgang að borðtölvu en velflestir nota snjallsíma. Þann 2. október tökum við þennan öfluga samskiptamiðil í notkun þar sem allt starfsfólk hefur hefur aðgang að tíðindum, tilkynningum og teymum, hvar og hvenær sem er.
Með haustinu koma líka nemarnir á spítalann. Yfir veturinn eru nærri 1.800 nemar í fjölbreyttum heilbrigðisgreinum í námi á spítalanum. Við leggjum okkur fram við að taka vel á móti þessum mikilvægu mögulegu framtíðarstarfskröftum og það var ánægjulegt að sjá hjarta-, lungna- og augnskurðdeild 12G fá eftirsótta viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsumhverfi fyrir hjúkrunarfræðinema og sjúkraliðanema. Til hamingju 12G!
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson