Landspítali hefur fengið nýtt og mjög öflugt segulómtæki á röntgendeild sem verður tekið í notkun í lok október 2017. Tækið var híft í hús á Landspítala Fossvogi föstudaginn 22. september.
Nýja segulómtækið er með segul upp á 3 teslur sem er tvöfalt sterkari segull en í núverandi tækjum Landspítala (3 Tesla segull = 60.000 sinnum segulsvið jarðar). Það er mjög tæknilega fullkomið og gefur möguleika á rannsóknaraðferðum sem ekki hefur verið hægt að stunda með eldri tækjum. Það er því mjög öflugt til sjúkdómsgreininga og er umtalsvert framfaraskref í myndgreiningu á Landspítala. Tækið verður mest notað í rannsóknum á sjúkdómum í heila- og taugakerfi.
Segulómtækið er tvöfalt þyngra en eldri tæki, vegur um 12 tonn. Því þurfti að styrkja húsið til að bera svo þungt tæki en húsnæðið er einnig hannað til að takmarka bæði titring og hávaða frá því.
Nýja segulómtækið í Fossvogi er eign Íslenskrar erfðagreiningar og verður nýtt fyrir rannsóknir á vegum þess fyrirtækis. Landspítali fær afnotarétt af tækinu til rannsókna á sjúklingum. Megin notkun tækisins til rannsókna verður á Alzheimer sjúkdómnum og er Landspítali þátttakandi í umfangsmikilli rannsókn á nýju lyfi gegn Alzheimer.