Kvenfélagið Hringurinn hefur fært fósturgreiningardeild Landspítala að gjöf tvö ómtæki af gerðinni General Electric. Andvirði tækjanna nemur 21 milljón króna. Tækin voru formlega afhent í þakkarboði sem haldið var Hringskonum 21. september 2017.
Ómskoðanir á fósturgreiningardeild Landspítala eru árlega á milli 10 og 11 þúsund. Á hverju ári greinast 50 til 70 fósturgallar og skiptir þá máli að hafa góðan tækjabúnað. Þétt eftirlit er með fóstrum sem eiga erfitt uppdráttar í móðurkviði m.a. vegna vaxtarseinkunar og/eða veikinda móður. Nýju tækin auðvelda til muna flóknari ómskoðanir eins og blóðflæðimælingar bæði í naflastreng og í kolli fósturs þar sem tækin eru mun betri en þau sem fyrir voru.
Með tilkomu nýju tækjanna gefst færi á að fjölga um eina skoðunarstofu, úr 5 í 6, til hagsbóta bæði fyrir konur sem koma til ómskoðunar og starfsfólkið.