Kæra samstarfsfólk!
I.
Þrátt fyrir allt þá er að minnsta kosti eitt sem sameinar þessa þjóð. Íslendingar vilja gott heilbrigðiskerfi fyrir alla og á Landspítala finnum við þennan velvilja á degi hverjum. Hjá okkur fæðast flestir Íslendingar og flestir eiga þar sín síðustu andartök. Landspítali snertir líf allra landsmanna með einhverjum hætti á hverju ári. Við erum stolt af því að eiga þessa samleið með fólkinu í landinu og við viljum vanda okkur. Það er sameiginlegt verkefni okkar starfsfólks Landspítala, stefnumótandi stjórnvalda og landsmanna allra að Landspítali geti sinnt hlutverkum sínum af sóma. Um það hljóta allir að vera sammála.
Enn eru sviptingar á stjórnmálasviðinu. Við höfum áður farið inn í óvissuvetur með ókláruð fjárlög og óljósa stefnu stjórnmálanna í heilbrigðismálum. Óstöðugleiki af þessu tagi gerir ríkari kröfur til mikilvægra stofnana eins og Landspítala að sinna sínum skilgreindu verkefnum af ábyrgð og festu. Það er okkar hlutverk að sinna sjúklingum og fjölskyldum þeirra og því hlutverki sinnum við hvernig sem pólitískir vindar blása.
Engu að síður er ljóst að næstu vikur og mánuðir munu verða afdrifaríkur tími fyrir spítalann og raunar heilbrigðiskerfið allt. Búast má við því að í kosningabaráttunni sem framundan er verði heilbrigðismálin enn ofarlega á baugi. Verkefni okkar á spítalanum er að gera almenningi og fulltrúum þeirra, stjórnmálamönnum, grein fyrir stöðu heilbrigðismála eins og þau snúa að Landspítala. Fram kom við framlagningu fjárlagafrumvarpsins, sem nú er í uppnámi, að 13 milljarðar myndu renna aukalega í heilbrigðisþjónustuna. Mátti skilja á mörgum að þarna væri um að ræða innspýtingu í kerfið. Svo er hins vegar ekki nema að hluta. Þarna er að miklum hluta um að ræða fé til að mæta verðlagsþróun og launahækkunum en einnig fé til annarra hluta kerfisins. Það sem rennur til Landspítala er hins vegar minna en ekkert þegar öll kurl eru til grafar komin, sem er alvarlegt.
Ég hef áður gert fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar fyrir árin 2018-2022 að umtalsefni (pdf) á þessum vettvangi og áhyggjur okkar af henni. Fyrir liggur af hálfu Landspítala ítarleg greining á fjárþörf spítalans til næstu ára sem ekki hefur verið hrakin. Þar kemur fram að töluvert meira fé þarf til rekstrar spítalans og raunar heilbrigðisþjónustunnar allrar heldur en gert ráð fyrir í fjármálaáætluninni. Áhyggjur okkar af fimm ára fjármálaáætluninni lutu sérstaklega að framlögum til rekstrar spítalans á árinu 2018. Í ljósi þessa þurfa framlög til spítalans á árinu 2018 því miður ekki að koma á óvart. Við fyrstu greiningu metum við svo að það vanti um 3.000 m.kr. til að viðhalda óbreyttum rekstri á spítalanum á árinu 2018 og tryggja framgang þeirra verkefna sem við sinnum nú þegar. Þá vantar 1.200 m.kr. til viðbótar í bráðnauðsynlegt viðhald á húsnæði spítalans, 500 m.kr. til 1. áfanga endurbóta á húsnæði geðsviðs og 1.000 m.kr. aukalega í nauðsynleg tækjakaup.
II.
Nú eftir helgina fá allir starfsmenn Landspítala senda könnun sem að þessu sinni ber yfirskriftina „Stefnukönnun og stjórnendamat“. Tilgangur könnunarinnar er tvíþættur; að meta hvernig tekist hefur til að innleiða stefnu Landspítala, að mati starfsmanna, og hins vegar að gefa starfsmönnum tækifæri á að meta sinn næsta yfirmann sem stjórnanda. Niðurstöðurnar verða mikilvægar til að taka ákvörðun um næstu skref við innleiðingu stefnunnar og til að vinna að þróun og eflingu stjórnenda á spítalanum. Það er von mín að allir starfsmenn taki sér tíma til að svara könnuninni.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin.
Páll Matthíasson