Landspítali tekur samskiptamiðilinn Workplace by Facebook í notkun nú á haustdögum. Um 200 vinnustaðir hér á landi og 14 þúsund á heimsvísu hafa nú þegar innleitt Workplace, en Landspítali verður þó fyrsti spítalinn í Evrópu til þess! Það verður nánar tiltekið mánudaginn 2. október sem allt starfsfólk Landspítala fær þátttökuboð í tölvupósti.
Spurningar og svör um Workplace er að finna hérna: http://www.landspitali.is/workplace
Markmiðið með innleiðingu Workplace er að auka flæði upplýsinga og þekkingar innan Landspítala, styrkja samvinnu og skilvirkni og efla starfsandann á vinnustaðnum. Einnig mun tölvupóstflóðið réna til muna og fundum fækka, ef vel tekst til, ásamt því að samskipti fólks verða einfaldari og fljótlegri. Workplace byggir á sömu eiginleikum og viðmóti og Facebook, þannig að þekkingarþröskuldurinn er mjög takmarkaður.
Hópvinnubúnaður á borð við Workplace færir starfsfólk nær hvort öðru með rafrænum hætti. Sá punktur er sérstaklega mikilvægur á vinnustöðum með dreifða starfsemi, en Landspítali hefur 5.500 starfsmenn og 2.000 nemendur; mannskap sem er staðsettur í 108 byggingum á 20 stöðum í Reykjavík.
Landspítali hefur verið með búnaðinn í prófun frá áramótum og síðustu mánuði hefur um 200 manna hópur verið að fikra sig áfram í notkun. Sá hópur mun stækka jafnt og þétt á næstu vikum og skipta þúsundum í árslok, ef að líkum lætur.