Í ársbyrjun 2016 hófst hér á landi opinbert átak gegn lifrarbólgu C sem stendur í þrjú ár. Landspítala var falin framkvæmd verkefnisins, en aðalsamstarfsaðili er sjúkrahúsið Vogur. Yfirumsjón með verkefninu hefur sóttvarnalæknir í umboði heilbrigðisráðherra.
Um 600 einstaklingar hafa nú hafið lyfjameðferð sem er um 70-80% þeirra sem taldir eru smitaðir hér á landi. Á fyrsta starfsári átaksins hafa um 95% þeirra sem klára meðferðina læknast. Meðferðin stendur í 12 vikur og aukaverkanir eru að engar eða vægar sem er mikil breyting frá þeirri meðferð sem áður var boðið upp á.
Einn af hverjum fimm veit ekki af smiti
Lifrarbólga C er oft einkennalaus og talið er að allt að 20% sjúklinga séu ógreindir og viti ekki af smitinu.
Á þessum tímamótum er mikilvægt að ná til allra þeirra sem hugsanlega eru smitaðir af lifrarbólgu C og bjóða þeim meðferð. Í þessari viku, 18.-22. september, verður því gert átak í skimun fyrir lifrarbólgu C og dreifibréf send á öll heimili í landinu þar sem allir sem eru í aukinni áhættu að hafa smitast af lifrabólgu C hvattir til að fara í greiningarpróf sem má fá á öllum heilsugæslustöðvum.
Auk þess verður í vikunni hægt að komast í greiningarpróf á vegum meðferðarátakins án þess að panta tíma. Prófað verður með hraðgreiningarprófum sem þarfnast eingöngu munnstroks eða blóðdropa og fást niðurstöður á 20-40 mínútum. Einnig getur þurft að fá blóðprufu til frekari staðfestingar.
Eftirtaldir einstaklingar eru í aukinni áhættu að hafa fengið lifrarbólgu C:
- Þeir sem hafa sprautað sig með fíkniefnum í æð
- Þeir sem hafa fengið blóðgjöf, storkuþætti eða ígrædd líffæri fyrir árið 1992
- Þeir sem eru smitaðir af HIV
- Þeir sem eiga maka sem smitaður er af lifrarbólgu C
- Karlmenn sem haft hafa mök við aðra karlmenn
Mikilvægt er að greina sem flesta á Íslandi sem smitast hafa af lifrarbólgu C og bjóða þeim meðferð því þannig aukast líkur á að hægt verði að uppræta sjúkdóminn á Íslandi. Hægt er að hafa samband við meðferðarátakið í gjaldfrjálsan síma 800-1111.
Hægt verður að fara á eftirtalda staði í vikunni á vegum meðferðarátaksins:
Landspítali:
- Göngudeild 10E við Hringbraut - mánudag til föstudags kl 8-16
- Göngudeild A3 í Fossvogi - mánudag til föstudags kl 8-16
SÁÁ:
- Sjúkrahúsið Vogur, Stórhöfða 45 - mánudag til föstudags kl 8-16
Rauði Kross Reykjavíkur:
- Frú Ragnheiður, á starfstíma bílsins kl 18-21
Samtök ´78:
- Á opnu húsi að Suðurgötu 3, fimmtudaginn 21. september kl 17-21
Nánari upplýsingar:
- Upplýsingar um sjúkdóminn: http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item13083/Lifrarbolga-C
- Upplýsingar um meðferðarátakið: http://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/serthjonusta/medferdaratak-vid-lifrarbolgu-c/