Kæra samstarfsfólk,
Öryggi sjúklinga er okkur efst í huga öllum stundum. Sú viðleitni birtist í stóru sem smáu. Ein stærsta ógn sem steðjar að sjúklingum sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús eru svo kallaðar spítalasýkingar. Það eru sýkingar sem sjúklingar smitast af í legu á sjúkrahúsi og geta verið alvarlegar, meðal annars í ljósi þess að sjúklingar eru í sérstaklega viðkvæmu ástandi og varnir með minnsta móti á sjúkrahúsi. Landspítali setti sér það metnaðarfulla markmið árið 2014 að fækka spítalasýkingum í 6,5% og standast þannig samanburð við norræn sjúkrahús. Í kjölfarið réðumst við í sérstakar aðgerðir og átak undir leiðsögn sýkingavarnardeildar. Sérstök áhersla var lögð á aukinn handþvott og betri þrif á húsnæði, ásamt því að styrkja samstarf deildarinnar við klíníkina. Meginforsenda árangurs á þessu sviði er þátttaka allra og það gleður mig því sérstaklega að óska okkur öllum til hamingju með að í síðustu viku urðu þau ánægjulegu tímamót að hlutfall spítalasýkinga er komið í 5,1% á Landspítala!
Í næstu viku mun fjármálaráðherra leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018. Starfsáætlun Alþingis gerir ráð fyrir að það verði afgreitt frá þinginu í nóvemberlok. Fjármálaáætlun stjórnvalda var samþykkt á síðasta þingi. Fyrir liggur samkvæmt áætluninni að næsta fjárlagaár kann að krefjast aðlögunar af hálfu Landspítala. Við gerum ráð fyrir árangursríku samtali við stjórnvöld í þessu efni sem öðru.
Hin árlega ráðstefna kvenna- og barnasviðs Landspítala, "Fjölskyldan og barnið", verður haldin 27. september næstkomandi í áttunda sinn. Ráðstefnan er öllum opin. Um er að ræða þverfaglegan viðburð, sem er ætlaður jafnt starfsfólki sviðsins sem öðru fagfólki. Á ráðstefnunni eru kynntar rannsóknir og verkefni sem tengjast viðfangsefnum og starfsemi kvenna- og barnasviðs. Að þessu sinni stíga á stokk þrettán fyrirlesarar og þar af eru sex gestafyrirlesarar og tveir fyrirlesarar sem koma erlendis frá. Ráðstefnan er mikilvægur liður í símenntun starfsfólks sviðsins og sömuleiðis kjörinn vettvangur fyrir fagfólk að koma saman, deila þekkingu og reynslu og upplifa góðan dag til gagns og gamans. https://www.facebook.com/Landspitali/videos/1576906875706386/
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin.
Páll Matthíasson