Herdís Herbertsdóttir hefur verið skipuð deildarstjóri flæðisdeildar til eins árs.
Herdís hefur verið hjúkrunardeildarstjóri á 5-daga endurhæfingardeild og dagdeild fyrir aldraða á Landakoti undanfarin 8 ár. Lovísa Agnes Jónsdóttir sem hefur sinnt stöðu deildarstjóra og innlagnarstjóra Landspítala mun áfram sinna starfi innlagnarstjóra.
Hlutverk flæðisdeildar Landspítala er annars vegar að samhæfa flæði sjúklinga frá innlögn til útskriftar þannig að þjónustan verði veitt þar sem sérþekking er í samræmi við heilsufar og þörf einstaklingsins fyrir þjónustu. Hins vegar að veita fagfólki, sjúklingum og aðstandendum þjónustu er varðar flóknar útskriftir og fagfólki faglega ráðgjöf varðandi greiningu og meðferð aldraðra.
Á flæðisdeild starfa þverfagleg teymi; útskriftar- og öldrunarteymi.
Hlutverk útskriftarteymis er að vera fagfólki, sjúklingum og aðstandendum til ráðgjafar og aðstoðar við flóknar útskriftir sjúklinga. Í teyminu er sérþekking er varðar útskriftarúrræði innan og utan Landspítala og hefur teymið milligöngu um umsóknir um margvíslega þjónustu. Útskriftateymi aðstoðar einnig við flóknari útskriftir ósjúkratryggðra ferðamanna.
Hlutverk öldrunarteymis er að vera ráðgjafandi aðili við starfsmenn varðandi greiningu og meðferð aldraðra á legudeildum spítalans.
Innlagnarstjóri Landspítala tilheyrir flæðisdeild og eru starfsmenn á vegum deildarinnar á innlagnarbakvöktum frá kl. 16:00 til 20 :00virka daga og frá kl. 10:00 til 22:00 um helgar og helgidaga.
Á flæðisdeild starfar sjúklingaráðgjafi sem sinnir samskiptum vegna sjúklinga frá Færeyjum sem fá meðferð á Landspítala samkvæmt samningi á milli spítalans og þarlendra heilbrigðisyfirvalda.