Listi yfir starfsemi á Landspítala sem hlaupið er styrktar í Reykjavíkurmaraþoni 2017 - Smella á myndina til að skoða betur.
Nú er sumri tekið að halla og ég vona að sem flest ykkar hafi notið þess í faðmi fjölskyldu og vina. Haustið hefur í för með sér upphaf skólastarfs og sömuleiðis eru Menningarnótt og Reykjavíkurmaraþon þar fyrirferðarmikil. Nú sem áður reima fjölmargir á sig hlaupaskóna og safna áheitum fyrir starfsemi á Landspítala. Þegar að þetta er skrifað hafa nokkrir tugir hlaupara safnað vel á 8. milljón króna fyrir spítalann. Við óskum þeim alls hins besta og þökkum stuðninginn innilega. Áfram Landspítali!
Því miður þá verða stundum alvarleg atvik í hinni flóknu og fjölþættu starfsemi Landspítala. Rík tilkynningarskylda gildir um alvarleg atvik á heilbrigðisstofnunum og á Landspítala eru að jafnaði 8-12 slík atvik tilkynnt árlega til Embættis landlæknis og lögreglu. Þessir aðilar hafa sjálfstæða rannsóknarskyldu sem er óháð viðbrögðum heilbrigðisstofnana við slíkum atburðum. Ætla má að þessi fjöldi sé svipaður hjá þeim erlendu háskólasjúkrahúsum, sem Landspítali ber sig saman við.
Landspítali hefur haft forystu og frumkvæði í umbótum í þessum viðkvæmu málum meðal annars með tvenns konar hætti:
Annars vegar með því að innleiða verklag Breta í meðferð alvarlegra atvika með aðstoð frá sérfræðingum NHS. Um er að ræða svo kallaða rótargreiningaraðferð (e. Root Cause Analysis). Slík greining gengur út á vandlega skipulagða rannsókn á orsök og eðli atviks og í kjölfarið eru gerðar tillögur til úrbóta sem hafa raunveruleg áhrif á þær orsakir sem að baki atvikinu liggja. Mistök eru mannleg. En eins og Sir Liam Donaldson, fyrrverandi landlæknir Breta, orðaði það: ,,To err is human, to cover up is unforgivable and to fail to learn is inexcusable" eða "Mistök eru mannleg, að hylma yfir þau er ófyrirgefanlegt og að læra ekki af þeim er óafsakanlegt".
Hins vegar hafði Landspítali, í kjölfar alvarlegs atviks sem varð fyrir nokkrum árum á gjörgæsludeild Landspítala og ákæru á hendur starfsmanni og spítalanum, frumkvæði að því að verklag í tengslum við alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu yrði endurskoðað af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Í byrjun árs 2015 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra starfshóp sem skilaði tillögum í september það ár. Meðal tillagna var að komið yrði á samstarfi milli Embættis landlæknis og lögreglu við rannsókn alvarlegra atvika. Með slíku samstarfi væri hægt að tryggja viðeigandi þverfaglega þekkingu við rannsókn þessara mála. Nefndin gerði það sömuleiðis að tillögu sinni að horft yrði til þeirrar aðferðarfræði sem beitt er við rannsókn samgönguslysa sem og þeirra fyrirmynda sem finna má í nágrannalöndum. Það er ánægjulegt að núverandi heilbrigðisráðherra hefur boðað að á grunni þessarar vinnu verði í haust lögð fram tvö frumvörp um breytingar á lögum svo viðbrögð og verklag aðila sem koma að alvarlegum atvikum séu skýrari.
Að endingu langar mig til að minna á,að á Íslandi stendur nú yfir meðferðarátak þar sem öllum sem greinst hafa með lifrarbólgu C er boðin lyfjameðferð. Með átakinu er stefnt að útrýmingu sjúkdómsins í samfélaginu. Samhliða lyfjameðferð er nauðsynlegt að leggja áherslu á skaðaminnkandi aðgerðir og þá sérstaklega að tryggja fólki sem sprautar sig með vímuefnum auðveldan aðgang að hreinum áhöldum til að stemma stigu við útbreiðslu lifrarbólgu C og draga úr líkum á endursmiti. Í því skyni hefur meðferðarátak gegn lifrarbólgu C nú framleitt áhaldapakka fyrir deildir Landspítala sem innihalda magn áhalda til að brúa bilið þar til viðkomandi einstaklingar geta farið í almennt apótek eða komast í samband við Frú Ragnheiði. Pakkarnir eru ókeypis og aðgengilegir öllum deildum í vefverslun Landspítala. Sjá meira um það á Facebook.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin.
Páll Matthíasson