Barnaspítali Hringsins fagnaði 60 ára afmæli sínu mánudaginn 19. júní 2017. Í tilefni af afmælinu heimsóttu forseti Íslands og heilbrigðisráðherra spítalann. Hápunktur dagsins var þó þegar Hringskonur gáfu spítalanum búnað fyrir um 50 milljónir króna. Smelltu hérna til að skoða myndir frá þessum hátíðardegi.
Hringurinn: 800 milljónir á 15 árum
Ef búnaðurinn er skoðaður nánar, þá voru þar á meðal 14 gjörgæsluvagnar, 6 öndunarvélar og tengikvíar fyrir sprautudælur. Allar þessar gjafir verða nýttar á vökudeild Barnaspítalans. Hringurinn er öflugur bakhjarl fyrir Landspítalann og sem dæmi má nefna að gjafir kvenfélagsins til spítalans undanfarin 15 ár nema ríflega 800 milljónum króna.
Gjörgæsluvagnarnir eru sérstaklega mikilvægur hluti af gjöfinni, því að í haust verður skráningin á vökudeildinni öll rafræn með notkun á nýju kerfi, auk þess sem hægt verður að safna stöðugt öllum upplýsingum frá þeim tækjum sem þarf við þá flóknu meðferð sem gjörgæsla nýbura er. Öndunarvélarnar eru talsvert fullkomnari en eldri gerðir og geta sameinað meðferð sem tvær mismunandi vélar þurfti til áður.
Barnaspítali í fremstu röð
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að barnadeild var sett á fót í tveimur herbergjum gamla Landspítalans árið 1957. Á síðasta ári lögðust vel á fjórða þúsund börn inn á legudeildir og dagdeild Barnaspítalans, um 14.000 börn komu á bráðamóttöku og tæplega 12.000 á göngudeildir. Öflugur stuðningur fjölmargra velunnara á stóran hlut að máli við uppbyggingu spítalans, einkum og sér í lagi Hringsins.
Starfsfólk spítalans veitir umtalsverða ráðgjöf til annarra stofnana og innan spítalans er rekið Rjóðrið, hvíldar- og endurhæfingardeild fyrir langveik börn. Árangur Barnaspítala Hringsins stenst vel samanburð við barnaspítala Norðurlandanna. Samhliða þjónustu við veik börn á Íslandi er Barnaspítalinn öflug kennslustofnun í tengslum við Háskóla Íslands og tekur þátt í fjölmörgum, mikilvægum rannsóknum.
Mikilvæg skref í sögunni
Ef litið er nánar á söguna, þá hóf Landspítali starfsemi árið 1930. Fyrstu áratugina voru börn meðhöndluð á sömu deildum og fullorðnir. Barnalæknar, barnahjúkrunarfræðingar eða annað sérhæft starfsfólk var ekki til staðar. Ljóst var að það fyrirkomulag var afar óhentugt og mikilvægt að búa börnum betra umhverfi enda börn um þriðjungur þjóðarinnar. Konum í Kvenfélaginu Hringnum rann blóðið til skyldunnar og þrýstu á um stofnun barnadeildar. Eftir tæp 30 ár var loks stofnuð sérstök barnadeild á Landspítalanum.
Árið 1965 flutti barnadeildin í nýrra og betra húsnæði innan Landspítalans. Enn studdu Hringskonur við deildina með ráðum og dáð. Í virðingar- og þakklætisskyni við Hringskonur hefur spítalinn síðan borið nafnið Barnaspítali Hringsins. En baráttunni var alls ekki lokið enda langtímamarkmið Hringskvenna og annarra velunnara að sérstakur barnaspítali skyldi rísa fyrir veik börn á Íslandi. Með dyggum stuðningi Hringskvenna varð sá draumur að veruleika snemma árs 2003. Hringskonur lögðu verulegar fjárupphæðir til byggingarinnar og tækjabúnaðar.