Bráðalyflækningadeild opnuð
Það var mikið um dýrðir og gleði í loftinu þegar bráðalyflækningadeild A2 var opnuð 1. júní með breyttri starfsemi. Á deildinni er unnið eftir erlendri fyrimynd, MAU (e. Medical Assessment Unit) þar sem sjúklingar sem koma frá bráðamóttöku eða göngudeildum með bráð lyflæknisfræðileg vandmál fá þverfaglegt mat og meðferð á innan við 48 klukkustundum. Opnun deildarinnar er klárlega liður í því að bæta flæði sjúklinga á Landspítala en umfram annað að bæta við þá þjónustu. Markmiðið er enda að tryggja að sjúklingar fái rétta meðferð, á réttum tíma, á réttum stað og hjá réttum aðila. Við höfum lengi stefnt að opnun slíkrar deildar en ákvörðunin var þó ekki endanlega tekin fyrr en í lok mars og þetta metnaðarfulla markmið - að opna deildina 1. júní - var sett. Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs, komst svo að orði við opnunina að í raun hefði starfsfólk verið beðið um að ganga á vatni og það er einstakt afrek að þetta hafi náðst. Starfsfólk deildarinnar, svo og öflugir iðnaðarmenn sem lögðu nótt við dag til að láta þetta verða að veruleika, á svo sannarlega hrós skilið. Þvílík elja og dugnaður! Til hamingju við öll.Sjá myndskeið um þessar merkilegu breytingar.
Erfiðar framkvæmdir
Miklar en nauðsynlegar framkvæmdir eru nú á ytra byrði A-álmu í Fossvogi og fylgir þeim gríðarlegur hávaði og ónæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Framkvæmdir munu standa fram á haust en þó er huggun harmi gegn að múrbroti mun linna í næstu viku og þá hávaða og rykmengun um leið.Spennandi sameining
Af þessu má sjá að mikið er um að vera á spítalanum, breytingar í starfsemi og uppbygging. Ágætt dæmi um það er nýleg sameining sýkla- og veirufræðideilda Landspítala. Þar eru árlega gerðar 240 þúsund rannsóknir, þar af 75 þúsund bakteríuræktanir og 39 þúsund áhætturannsóknir. Umfangið er því umtalsvert. Starfsemin var áður í tveim deildum, sýklafræðideild og veirufræðideild, en hefur nú verið sameinuð eins og tíðkast víðast hvar á öðrum nútímalegum hátæknispítölum og fylgir ítrustu kröfum um fagmennsku, framþróun, skilvirkni og öryggi. Sameining þessara deilda er einnig sumpartinn hluti af upptakti og undirbúningi fyrir starfsemi Landspítala í nýjum byggingum við Hringbraut í Reykjavík. Þangað mun deildin flytjast í fyllingu tímans en er nú á tveimur stöðum við Ármúla og Barónsstíg. Sameinuð deild er undir styrkri stjórn tveggja framúrskarandi einstaklinga, lífeindafræðingsins og deildarstjórans Ólafíu Svandísar Grétarsdóttur og yfirlæknisins Karl K. Kristinssonar. Mannauðurinn þarna er gríðarlegur og deildin er mönnuð flinku fagfólki með fjölbreytta menntun og ólíkan bakgrunn.Sjá myndskeið um starfsemi deildarinnar og mannauðinn þar.
Ný stjórnarnefnd?
Í vikunni samþykkti Alþingi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu ár. Athugasemdir Landspítala liggja fyrir. Við fögnum áherslu stjórnvalda á uppbyggingu Landspítala við Hringbraut en vitum að framundan er sameiginlegt verkefni okkar allra við að vinna úr vilja Alþingis. Í tengslum við umræðu á Alþingi um fjármálaáætlunina voru kynntar hugmyndir meirihluta fjárlaganefndar og formanns velferðarnefndar um stjórn yfir spítalann. Tillögurnar lúta að því að skoða kosti slíks fyrirkomulags og galla. Ekki er hægt að taka afstöðu til þeirra hugmynda fyrr en mótuð tillaga kemur fram. Misjöfn reynsla var af stjórnarnefndum sjúkrahúsa hér á landi áður en þær voru aflagðar með lagabreytingu. Faglega skipuð stjórn Landspítala, þar sem saman kæmi yfirgripsmikil þekking á stefnumótun og rekstri í heilbrigðisþjónustu, yrði hins vegar að líkindum til bóta. Slíka þekkingu væri æskilegt að sækja að minnsta kosti að einhverjum hluta út fyrir landsteinana, svipað og hefur verið gert með góðum árangri í öðrum umsvifamiklum rekstri í íslensku atvinnulífi.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson