Hulda Hjartardóttir sérfræðilæknir hefur verið ráðin yfirlæknir fæðingarþjónustu Landspítala frá og með 1. maí 2017 til næstu fimm ára.
Hulda er sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Hún lauk embættisprófi frá HÍ 1988 og stundaði fyrst sérnám á kvennadeild Landspítala en síðan í Bretlandi frá árinu 1991 þar til hún var ráðin sérfræðingur á kvennadeild LSH árið 1998. Hulda sérhæfði sig í fósturgreiningu og umönnun kvenna í áhættumeðgöngu. Hún varð félagi (member) í RCOG árið 1994 og síðan Fellow árið 2015. Hún hefur verið aðstoðaryfirlæknir fósturgreiningardeildar LSH og var settur yfirlæknir á árunum 2007-2009. Hulda starfaði einnig sem yfirlæknir á fæðingardeild Háskólasjúkrahússins í Stafangri árið 2013.
Hulda hefur setið í stjórn Læknafélags Íslands sem ritari og síðan varaformaður og einnig verið formaður Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK). Hún er fulltrúi FÍFK í vísindanefnd The Nordic Federation of Obstetrics and Gynecology (NFOG) og einnig í hóp NFOG um samnorrænar klínískar leiðbeiningar.
Hulda hefur séð um rhesusvarnir á landinu ásamt teymi Blóðbanka og Barnaspítala Hringsins. Hún hefur tekið þátt í þróun rafrænnar mæðra- og fæðingarskrár sem verður tekin í notkun síðar á þessu ári. Hulda hefur tekið þátt í formlegri kennslu lækna-, ljósmæðra- og hjúkrunarfræðinema og hefur hlotið þjálfun sem kennari í bráðahjálp í fæðingum og meðgöngu (ALSO og PROMPT námskeið). Hulda hefur m.a. stundað rannsóknir á útkomu fósturgreininga hérlendis og vinnur nú að doktorsverkefni um ómskoðanir í fæðingum.