Sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala afhenti þann 24. maí 2017 tvo styrki til doktorsnáms við Háskóla Íslands tengda Rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í öldrunarfræðum (RHLÖ). Þetta er í fimmta sinn sem Sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala afhendir doktorsstyrki en styrkirnir eru til þriggja ára og eru einskorðaðir við doktorsnema á öldrunarfræðasviði þar sem verkefni sé unnin í húsakynnum RHLÖ.
- Kristín Björnsdóttir, prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands er leiðbeinandi Margrétar Guðnadóttur doktorsnema við hjúkrunarfræðideild heilbrigðissviðs Háskóla Íslands. Markmið verkefnisins er að auka skilning og þekkingu á því hvað heilabilaðir og aðstandendur þeirra telja að styðji við búsetu í heimahúsi. Sú þekking gæti nýst í samstarfi heimaþjónustu og sérhæfðar þjónustueiningar til að þróa og innleiða þjónustu og íhlutanir sem styðja við fjölskyldur einstaklinga með heilabilun. Þetta er sjálfstæð íslensk rannsókn en nýtist jafnframt sem hluti af alþjóðlegri rannsókn.
- María K. Jónsdóttir, dósent við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík. Markmið verkefnisins er að nýta faraldsfræðileg gögn Öldrunarrannsóknarinnar til að skoða hugræna öldrun út frá ólíkum sjónarhornum. Verkefnið nýtir vel gögn og tækifæri Öldrunarrannsóknar Hjartaverndar. Staða þekkingar varðandi öldrun heilans og tengsl við hugrænan forða og heilaforða er rakin í inngangi. Í rannsóknaráætlun er útlistað hvernig mældir þættir í báðum áföngum öldrunarrannsóknar verða nýttir til að kanna hvernig hugrænn forði og heilaforði tengjast innbyrðis, auk kynjasamanburð og loks hvernig mældar breytur hafa áhrif á þróun vitrænnar getu á 5 ára tímabili. Gagnsemi verkefnisins lýtur að því að bæta þekkingu á þáttum sem hafa áhrif á heila og hugrænni færni aldraðs fólks.
Við mat á umsóknum voru fengnir utanaðkomandi sérfræðingar. Í ár skipuðu dómnefnd þau Guðný Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri rannsókna Hjartaverndar, Steinunn Hrólfsdóttir, dósent við félagsráðgjafardeild HÍ og Guðlaug Þórsdóttir öldrunarlæknir.
Styrktarsjóður Sjálfseignarstofnunar St. Jósefsspítala, sem hefur að markmiði að stuðla að þverfaglegum öldrunarrannsóknum við RHLÖ, mun auglýsa einn doktorsnemastyrk fyrir janúar 2018. Doktorsnemar eða leiðbeinendur sem eru í rannsóknum sem tengjast öldrun geta sótt um styrkina.
Mynd: Doktorsleiðbeinendur, doktorsnemi og fulltrúar stjórnar styrktarsjóðs St. Jósefsspítala - Pálmi V Jónsson, Brynja Björk Magnúsdóttir María K. Jónsdóttir, Kristín Björnsdóttir, Margrét Guðnadóttir, Milan Chang, Jón Eyjólfur Jónsson - maí 2017