Marianne Elisabeth Klinke hjúkrunarfræðingur er nýráðin forstöðumaður fræðasviðs í hjúkrun tauga- og taugaendurhæfingasjúklinga á Landspítala.
Marianne hefur unnið á taugalækningadeild Landspítala síðan 2000 og síðastliðin 20 ár við hjúkrun taugasjúklinga. Hún lauk doktorsprófi í hjúkrun árið 2015 en doktorsritgerðin hennar ber heitið:Gaumstol eftir heilablóðfall í hægra heilahveli: Klínískur gangur og reynsla sjúklinga.
Marianne hefur unnið innan tauga- og taugaendurhæfingarhjúkrunar að rannsóknum, gæða- og þróunarverkefnum sem snúa að ýmsum hópum taugasjúklinga. Í núverandi rannsóknarvinnu fæst hún við rannsóknir á reynslu, mati og meðferð sjúklinga með gaumstol eftir heilaskaða og munu niðurstöður væntanlega nýtast hjúkrun í bráðafasa, endurhæfingu og fram yfir útskrift. Sérstakt áhugasvið hennar er efling aðferða til að fá innsýn í reynsluheim sjúklinga með gaumstol, aðrar tegundir af vitrænni skerðingu og tjáskiptaerfiðleika en þessum einstaklingum reynist erfitt að setja orð á líðan sína og þarfir. Fyrir utan þessi viðfangsefni hefur hún rannsakað erfiðleika við að borða eftir heilablóðfall og þróað og innleitt klíniskar leiðbeiningar.
Marianne hefur ávallt lagt áherslu á að viðfangsefnin sem hún fæst við hafi klíníska skírskotun og mun hún halda áfram starfi sínu við að bæta þjónustu við tauga- og taugaendurhæfingarsjúklinga ásamt því að leiðbeina nemum og starfsfólki.