Veggspjöld í viku hjúkrunar 2017 á Landspítala. Sjá fleiri myndir
I.
Til hamingju með daginn! Í dag er alþjóðadagur hjúkrunarfræðinga og ber upp á fæðingardag Florence Nightingale sem var upphafskona nútíma hjúkrunarfræði. Hennar frægasta ritverk er vafalaust „Notes on Nursing“ en bókin „Notes on Hospitals“ er ekki síður tímamótaverk. Í því verki gerði Nightingale öryggi sjúklinga að aðalatriði í hönnun sjúkrahúsa og kollvarpaði þannig ríkjandi hugmyndum. Og hún var ekkert að skafa utan af hlutunum en í upphafi textans segir (í lauslegri þýðingu): „Það kann að þykja undarlegt að taka þurfi fram að megináhersla spítala eigi að vera sú að skaða ekki hina sjúku ...“. Tillögur sínar byggði hún á tölfræðilegri greiningu á tíðni sýkinga og öðrum fræðilegum athugunum. Nú, 160 árum síðar, hönnum við nýjan Landspítala með sömu grunnsjónarmið um öryggi sjúklinga í huga. Hjúkrunarráð Landspítala hefur í vikunni staðið að röð viðburða undir merkjum „Viku hjúkrunar“ þar sem metnaðarfull dagskrá hefur tæpast farið fram hjá neinum. Öryggi og meðferð sjúklinga hefur auðvitað verið ofarlega á baugi, bæði á málþingum og veggspjaldakynningum, sem og framtíð hjúkrunarstarfsins. Sjálfur sótti ég áhugaverðan fyrirlestur um framtíð hjúkrunarnámsins í gær en fátt brennur meira á heilbrigðisþjónustu nútímans en fyrirsjáanlegur skortur á hjúkrunarfræðingum í framtíðinni. Okkar verkefni er að róa stöðugt öllum árum að því að gera spítalann okkar að spennandi valkosti fyrir nýja hjúkrunarfræðinga og taka vel á móti þeim í námi og starfi, sem og að tryggja að þeir sem þegar starfa á Landspítala haldi áfram sínum mikilvægum störfum.
II.
Öryggi sjúklinga er leiðarljós í starfi Landspítala og það er stöðugt verkefni að nýta nýjungar í verkferlum til að tryggja það. Nú á vormánuðum lýkur innleiðingu á kerfi til stigunar sjúklinga, NEWS (National Early Warning Score) en það er bresk aðferðafræði til að greina áhættu sjúklinga út frá lífsmörkum og fleiri breytum. Markmiðið er að gera áhættu sýnilega svo að unnt sé að bregðast við og fyrirbyggja versnun á ástandi sjúklings með stigvaxandi eftirliti og inngripum lækna og hjúkrunarfræðinga. Hér er um mikilvægt framfaraskref að ræða og ég hvet ykkur öll eindregið til að kynna ykkur kerfið (myndskeið).
III.
Landspítali samþykkti fyrr á þessu ári stefnu um ráðningarfyrirkomulag sérfræðilækna (pdf) sem kynnt hefur verið yfirlæknum og fleirum. Tilgangurinn er að bæta þjónustu, auka öryggi sjúklinga og stytta meðallegutíma. Markmið stefnunnar er að auka meðalstarfshlutfall sérfræðilækna við Landspítala þannig að sem flestir sérfræðilæknar verði í fullu starfi og/eða starfi eingöngu á vegum Landspítala. Hlutastörf sérfræðilækna verði þannig í framtíðinni undantekningin og ákvarðanir um slíkt teknar út frá þörfum sjúklinga og forsendum starfseminnar.
Hafið það gott í blíðviðrinu um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson