Menntadeild Landspítala fékk 9. maí 2017 afhentan styrk frá ERASMUS+, 13.650 evrur, til að efla leiðbeinendur á spítalanum í starfi sínu með nemendum og nýráðnum.
Nú mun menntadeildin geta styrkt ferðir 12 leiðbeinenda til að kynna sér kennsluaðferðir og skipulag við móttöku nemenda og nýráðinna við evrópskar heilbrigðisstofnanir. Þessar heimsóknir hafa þegar verið skipulagðar. Menntadeildin óskar eftir ábendingum og samstarfsaðilum fyrir næstu umsókn þar sem hægt væri að sækja um fyrir leiðbeinendur fleiri starfstétta.
Menntadeildin fékk einnig styrki úr ERASMUS+ menntaáætluninni árin 2014 og 2016. Með þeim styrkjum hefur verið hægt að greiða ferðakostnað 24 leiðbeinenda. Þessar heimsóknir til annarra stofnana hafa verið uppspretta margra nýrra hugmynda við útfærslu á menntahlutverki starfsmanna við Landspítala. Einnig hafa heimsóknirnar reynst mikilvægar fyrir tengslanet ferðalanganna og starfsgleði.