Sigurður Örn Hektorsson hefur verið ráðinn yfirlæknir fíknigeðdeilda geðsviðs frá 1. maí 2017 til 5 ára.
Sigurður Örn hefur 35 ára reynslu af fjölbreytilegu klínísku læknisstarfi- og námi í 4 löndum. Hann hefur starfað á geðsviði Landspítala við geðlækningar og fíknilækningar 1997-2002 og 2008-2011. Árin 2011-2015 var Sigurður Örn í Kaliforníu við geð- og fíknilæknisstörf en frá þeim tíma sérfræðingur á fíknigeðdeild Landspítala og settur yfirlæknir þar frá 1. mars 2016.
Sigurður Örn lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og almennu læknaprófi og sérfræðiprófi í heimilislækningum frá McMaster University í Kanada 1985. Hann lauk sérnámi í geðlækningum frá Landspítala - háskólasjúkrahúsi árið 2000 og bandarísku sérfræðiprófi í fíknilækningum 2011. Hann var í tvö ár í sérhæfðu samfélagsteymi (ACT) fyrir alvarlega geðveika og heimilislausa einstaklinga með fíknisjúkdóma (San Diego 2013-2015) og veitti um skeið geðlæknisfræðilega forystu í sérhæfðu meðferðarteymi fyrir nýútskrifaða, geð- og fíknisjúka fanga frá ríkisfangelsum Kaliforníu (Los Angeles 2011-2013).