Með nýrri augnbotnamyndavél innkirtladeildar Landspítala er hægt að leita að forstigsbreytingum sjónukvilla hjá fólki með sykursýki með bestu mögulegu aðferð.
Myndavélin er gjöf Oddfellowstúkunnar Elísabetu til deildarinnar og var afhent 8. maí 2017. Innkirtladeild hefur aldrei átt augnbotnamyndavél en slíkar vélar fóru að ryðja sér til rúms sem aðferð til að skima fyrir augabotnabreytingum seint á síðustu öld.
Sjónukvilli (skemmdir í augnbotnum) er alvarlegur fylgikvilli sykursýki sem hægt er að koma í veg fyrir með góðri sykurstjórn. Ef byrjunarbreytingar uppgötvast má koma í veg fyrir versnun og blindu með réttri meðferð og kemur myndavélin þá að góðum notum því nauðsynlegt er að skoða augnbotna með reglulegu millibili. Hingað til hefur fólk í eftirliti á Landspítala þurft að fara sérferð til augnlæknis á stofu en nú verður hægt að skima eftir augnbotnabreytingum um leið og komið er á göngudeild sykursjúkra. Vélin mun einnig nýtast börnum sem eru í eftirliti á Barnaspítala Hringsins.
Vefur innkirtladeildar en göngudeild sykursjúkra tilheyrir henni
Um augnbotnamyndavélina á Youtube