Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor hlaut verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum sem afhent voru á Vísindum á vordögum, árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, í Hringsal 4. maí 2017.
Verðlaunasjóðinn stofnuðu árið 1986 Árni Kristinsson og Þórður Harðarson, núverandi heiðursprófessorar við Háskóla Íslands og fyrrverandi yfirlæknar við Landspítala. Verðlaunin nema kr. 5.000.000 og eru einhver stærstu verðlaun sem veitt eru fyrir vísindastörf hér á landi.
Unnur Anna Valdimarsdóttir lauk BA prófi í sálfræði við Háskóla Íslands 1996 og doktorsprófi í klínískri faraldsfræði við Karólínsku stofnunina í Stokkhólmi 2003. Hún starfaði þar til ársins 2007 en síðan hefur hún verið forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, fyrst sem dósent en sem prófessor frá árinu 2012. Undir hennar stjórn hefur nám í lýðheilsuvísindum eflst mjög. Frá árinu 2013 hefur Unnur verið varaforseti læknadeildar Háskóla Íslands. Hún hefur leiðbeint 12 doktorsefnum sem lokið hafa doktorsprófi og er leiðbeinandi sjö annarra sem eru í doktorsnámi.
Unnur hefur hlotið fjölda stórra rannsóknarstyrkja, meðal annars frá evrópska vísindaráðinu og fleirum til rannsókna á samspili erfða og heilsufarslegra afleiðinga alvarlegra sálrænna áfalla.
Áherslur Unnar beinast einkum að því að skilja og rannsaka frá ýmsum sjónarhornum hvernig sálrænt álag og áföll hafa áhrif á heilsu og sjúkdómsþróun. Ritaskrá hennar er mikil að vöxtum og hafa niðurstöðurnar birst í ýmsum virtustu tímritum heims á viðkomandi fræðasviðum. Skráin ber skýrlega með sér að hún hefur náð frábærum árangri í vísindarannsóknum.
Unnur er án efa meðal fremstu og þekktustu fræðimanna heims á sínu sviði.