Berglind Hálfdánsdóttir er ungur vísindamaður Landspítala 2017.
Berglind Hálfdánsdóttir er fædd árið 1973. Hún lauk BSc-gráðu í hjúkrun frá Háskóla Íslands árið 2004, Cand.Obst-gráðu í ljósmóðurfræði árið 2007 og MSc-gráðu í ljósmóðurfræði frá sama skóla árið 2011. Berglind hóf doktorsnám í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands árið 2012 og varði doktorsritgerð sína 2. maí 2016.
Doktorsritgerð Berglindar ber heitið Fyrirfram ákveðnar heimafæðingar á Íslandi: Forsendur, útkoma og áhrifaþættir (e. Planned home births in Iceland: Premise, outcome and influential factors). Leiðbeinandi Berglindar í verkefninu var dr. Herdís Sveinsdóttir, prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Auk hennar sátu í doktorsnefndinni dr. Ólöf Ásta Ólafsdóttir, dósent við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Alexander Kr. Smárason, prófessor við Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri, og dr. Ingegerd Hildingsson, prófessor við Háskólann í Uppsölum.
Markmið doktorsrannsóknarinnar var að skoða sjálfræði kvenna um val á fæðingarstað, bera saman útkomu fyrirfram ákveðinna heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga á Íslandi og meta áhrif frábendinga og viðhorfa kvenna á útkomu fæðinga. Sjálfræði kvenna um val á fæðingarstað var rannsakað með hugtakagreiningu. Útkoma heimafæðinga og áhrif frábendinga voru könnuð með afturvirkum ferilrannsóknum á gögnum úr mæðraskrám. Áhrif viðhorfa kvenna til heimafæðinga á útkomu fæðinga voru skoðuð með framvirkri ferilrannsókn á gögnum úr rannsókninni Barneign og Heilsa. Helstu niðurstöður voru þær að tíðni hríðaörvunar með lyfjum, mænurótardeyfingar og blæðingar eftir fæðingu ≥500 ml var marktækt lægri í fyrirfram ákveðnum heimafæðingum en sjúkrahúsfæðingum, að áhrif frábendinga voru marktækt neikvæðari í fyrirfram ákveðnum heimafæðingum en í sjúkrahúsfæðingum og að viðhorf kvenna til fæðinga og inngripa hafði áhrif á sambandið milli viðhorfa þeirra til heimafæðinga og útkomu fæðinganna.
Berglind hlaut rannsóknarstyrki til doktorsnáms frá Rannsóknarnámssjóði Rannís, Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda, Rannsóknasjóði Ljósmæðrafélagsins og Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur.
Berglind tekur um þessar mundir þátt í samnorrænni rannsókn á útkomu heimafæðinga á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Hún tekur einnig þátt í fjölþjóðlegri rannsókn á tíðni inngripa í fæðingum og tengslum inngripatíðni og útkomu fæðinga í ólíkum löndum. Enn fremur leiðir Berglind rannsókn á útkomu fæðinga í tengslum við heilsufars- og áhættuflokkun á fæðingarvakt Landspítala. Til þessa verkefnis hlaut Berglind styrk ætlaðan ungu starfsfólki Landspítala til klínískra rannsókna.
Berglind Hálfdánsdóttir sinnir nú ljósmóðurstörfum, verkefnavinnu og rannsóknarvinnu á fæðingarvakt Landspítala auk þess sem hún er lektor í ljósmóðurfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Á Landspítala hefur Berglind frá doktorsvörn sinni tekið þátt í endurskoðun verklags á fæðingarvakt, unnið efni fyrir nýjar vefsíður deildarinnar og stýrt leshópum samstarfsfólks auk þess sem hún situr í stýrinefnd fagráðs ljósmæðra á Landspítala. Í störfum sínum við Háskólann hefur hún meðal annars haft umsjón með klínískum námskeiðum og verið tengiliður við færnisetur hjúkrunarfræðideildar.
Birtar ritrýndar greinar
Halfdansdottir, B., Olafsdottir, O. A., Hildingsson, I., Smarason, A. K., and Sveinsdottir, H. (2016). Maternal attitudes towards home birth and their effect on birth outcomes in Iceland: A prospective cohort study. Midwifery 34, 95-104. doi:10.1016/j.midw.2015.12.010.
Gottfredsdottir, H., Magnúsdóttir, H., Hálfdánsdóttir, B. (2015). Home birth constructed as a safe choice in Iceland: a content analysis on Icelandic media. Sexual & Reproductive Healthcare 6, 138-144. doi:10.1016/j.srhc.2015.05.004.
Halfdansdottir, B., Wilson, M. E., Hildingsson, I., Olafsdottir, O. A., Smarason, A. K., and Sveinsdottir, H. (2015). Autonomy in place of birth: a concept analysis. Medicine, Health Care and Philosophy 18, 591-600. doi: 10.1007/s11019-015-9624-y.
Halfdansdottir, B., Smarason, A. K., Olafsdottir, O. A., Hildingsson, I., and Sveinsdottir, H. (2015). Outcome of planned home and hospital births among low-risk women in Iceland in 2005–2009: a retrospective cohort study. Birth 42, 16-26. doi: 10.1111/birt.12150.
Berglind Hálfdánsdóttir, Ólöf Ásta Ólafsdóttir, og Alexander Kristinn Smárason. (2011). Að fæða heima – áhætta eða ávinningur? Samanburður á útkomu fyrirfram ákveðinna heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga á Íslandi 2005-2009: afturvirk forrannsókn með tilfella-viðmiðasniði [Giving birth at home – risk or reward? Comparing the outcome of planned home and hospital birth in Iceland 2005-2009: a retrospective case-control pilot study]. Ljósmæðrablaðið 89(2), 6-12. Icelandic.