Í Morgunblaðinu 27. apríl birtist frétt byggð á viðtali við félags- og jafnréttismálaráðherra um heilbrigðismál og þróun fjárveitinga til Landspítala. Jafnframt var birt greining hans á fjárveitingum til Landspítala síðustu ár (samkvæmt ársreikningum spítalans) og næstu fimm ár (samkvæmt tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2018-2022).
Landspítali vill vegna þessarar umfjöllunar gera eftirfarandi athugasemdir:
Landspítali kannast ekki við þær tölur sem lagðar eru til grundvallar greiningu ráðherra fyrir árin 2016 og 2017. Hin meinta hækkun ríkisframlags til Landspítala frá árinu 2015 hefur ekki átt sér stað. Ríkisframlag til LSH, samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2016 var 52,6 milljarðar sem á verðlagi 2017 er nálægt 56 milljörðum. Í greiningu ráðherra er ríkisframlagið til Landspítala sagt 62 milljarðar á árinu 2016 að meðtöldum kostnaði við nýbyggingar NLSH (1,8 milljarðar). Hér skeikar því 4-6 milljörðum.
Ríkisframlag til LSH samkvæmt fjárlögum 2017 er 56,9 milljarðar. Í greiningu ráðherra er þessi tala birt sem 67 milljarðar. Fjárveiting til byggingar sjúkrahúss á lóð Landspítala árið 2017 er 1,5 milljarðar samkvæmt fjárlögum. Hér skeikar því um 8,5 milljarða.
Þá er í greiningu ráðherra félags- og jafnréttismála sýnd „raunútgjöld 2006 uppfærð m.v. lýðfræðilega þróun “og ályktað „að búið er að endurreisa fjármögnun spítalans úr þeirri miklu lægð sem varð hér eftir efnahagshrun“. Hækkunin virðist nema allt að 2% á ári sem er í ágætum takti við raunþróun eftirspurnar á Landspítala. Vandinn er að Landspítali hefur ekki fengið allt þetta fjármagn sem ráðherra gerir í sinni greiningu ráð fyrir að hafi verið veitt til spítalans á árunum 2016 og 2017 (sbr. hér að ofan). Þessi fullyrðing ráðherra, sem má segja að sé meginskilaboð hans í viðtalinu, byggir því á gögnum sem eru ekki rétt og skeikar þar allt að 8,5 milljörðum (sem nemur um 15% af raunframlagi ríkis til spítalans árið 2017). Val á tímabili til skoðunar hefur einnig áhrif. Landspítali, sem ein stofnun, hefur verið í rekstri frá árinu 2000 og eðlilegt er að skoða þróun fjárveitinga frá þeim tíma. Ráðherra velur að hefja sína greiningu árið 2006. Fjárframlög til heilbrigðisþjónustu, þar á meðal Landspítala, náðu hápunkti árið 2008, lækkuðu svo hratt næstu ár en viðsnúningur hófst hvað Landspítala varðar, árin 2011-2013 eftir því á hvaða þætti fjárframlaga er litið. Fjárframlög til Landspítala eru nú, árið 2017, sambærileg við það sem var í upphafi aldarinnar (á föstu verðlagi) þrátt fyrir fjölda viðbótarverkefna svo og aukningu eftirspurnar. Ályktun um endureisn fjármögnunar spítalans þarf að skoða í þessu ljósi.
Rétt er að hnykkja á því að tölurnar fyrir árin 2018-2022 eru ekki rauntölur heldur tillögur sem eru nú til þinglegrar meðferðar og varðar málefnasvið sjúkrahúsþjónustu. Þá vekur athygli að ráðherra setur í greiningu sinni þessar tölur fram sem viðbótarframlag til Landspítala eingöngu. Þær eru hins vegar ætlaðar málefnasviðinu í heild en undir það fellur öll almenn og sérhæfð sjúkrahúsþjónusta í landinu svo og sjúkrahúsþjónusta sem landsmenn sækja sér erlendis og greidd er úr sameiginlegum sjóðum.
Loks tekur Landspítali undir með ráðherra að stjórnendur spítalans verða að sýna ráðdeild í rekstri. Sú ráðdeild hefur þegar skilað þeim árangri að kostnaður við veitta þjónustu á Landspítala er um það bil helmingi lægri en á sambærilegum sjúkrahúsum í Svíþjóð samkvæmt úttekt fjárlaganefndar og velferðarráðuneytis sem unnin var af McKinsey & Company.
Leit
Loka