Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala
Ávarp á ársfundi 2017 (flutt með glærum)
Ráðherra, samstarfsfólk og aðrir góðir gestir.!
Það gengur vel á Íslandi.
Efnahagslífið er í uppsveiflu og við sjáum merki uppgangs víða. Hér hefur verið verulegur hagvöxtur í mörg ár - sem sést best á öllum fínu bílunum á götunum - og eldhúsinnréttingunum og ísskápunum sem hrynja inn á endurvinnslustöðvarnar. Það er allt að gerast í Sorpu.
Í kjölfar kosninga tók við ríkisstjórn sem fékk í fangið sterka kröfu almennings um uppbyggingu innviða og þá sérstaklega heilbrigðiskerfisins. Ríkisstjórnin hefur líka lagt fram stefnuáætlun þar sem segir að ætlunin sé að stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins með áherslu á að setja heilbrigðismálin í forgang.
Í 5 ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eru síðan hagstjórnarmarkmið hennar tíunduð en meðal þeirra fjögurra helstu er að tryggja og efla opinbera þjónustu og innviði. Í áætlunni er enda gert ráð fyrir 22% raunaukningu uppsafnaðra útgjalda til heilbrigðismála. Hér gæti maður ætlað að verið væri að bregðast við ákalli tæplega 90 þúsund íslendinga sem skrifuðu undir áskorun þess efnis að auka útgjöld til heilbrigðismála í 11% af VLF. Það er einmitt rétt ár nú um þessar mundir frá lokum undirskriftarsöfnunar Kára Stefánssonar. En eins og María Heimisdóttir mun rekja betur á eftir er ekki allt sem sýnist í þeim efnum, því miður.
Það gengur vel á Íslandi og það gengur vel á Landspítala.
Loksins sjáum við fyrir endann á þrætum um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Gert er ráð fyrir að eftir sex ár héðan í frá verði meðferðarkjarninn risinn og satt best að segja verður það ekki degi of snemma. Þetta er gríðarlegt fagnaðarefni og við horfum björtum augum að þeirri framtíð sem okkur er búin þegar þessari tæknilega flóknustu framkvæmd Íslandssögunnar lýkur og nýr meðferðarkjarni lýkur upp dyrum sínum. Og sjúkrahótel spítalans verður tilbúið nú með haustinu en það mun -að minnsta kosti ef það er rekið til að mæta þörfum sjúklinga Landspítala - bæta nýtingu okkar á bráðadeildum og bæta mjög þjónustu okkar við landsmenn alla, ekki síst fólk sem kemur utan af landi til að sækja sér meðferð.
Já, það gengur vel á Landspítala - þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir stöðuga aukningu í eftirspurn eftir þjónustunni og gríðarlegt álag á starfsfólk og sjúklinga gengur, þegar á heildina er litið vel hjá okkur. Fjöldi skurðaðgerða eykst sem og fjöldi rannsókna, þeim sem bíða lengur en 3 mánuði eftir aðgerð fækkar - og meðalbiðtími fólks sem bíður eftir liðskiptaaðgerð hefur styst úr rúmlega 10 í 6 mánuði á einu ári - og svona mætti lengi telja. Allt fyrir þrautseigju og elju öflugs starfsfólks sem setur sjúklinginn í öndvegi, sama hvað á gengur - og þakka ykkur innilega fyrir það. Ýmis vísindaverkefni blómstra, sem dæmi má nefna landsátakið um mergæxlisrannsókn; Blóðskimun til bjargar. Og okkur miðar vel í því að vinna bug á lifrarbólgu C, þar sem spítalinn fær lyf fyrir allt að 14 milljarða króna, þjóðinni að kostnaðarlausu, til að kanna hvort það sé gerlegt að útrýma þessum skaðvaldi úr heilu samfélagi.
Hvernig má allt þetta vera þegar litið er til þess sem stundum virðist endalaus fréttaflutningur af bágri stöðu á Landspítala? Hvernig má það vera að stofnun sem virðist oft á tíðum aðframkomin af álagi og starfsfólkið í réttu hlutfalli komið að fótum fram telji sig vera nokkurs megnugt yfirleitt?
Þá er rétt að minna á það að um Landspítala gildir eins og sagt var um annan góðan stað; "í húsi föður míns eru margar vistarverur". Hjá okkur skiptast á skin og skúrir, spítalinn er stærsta stofnun landsins og ástandið getur verið allt frá því að vera frábært og í að vera hræðilegt. Allt á sama deginum, jafnvel mínútunni. Fjölbreytnin og breytileikinn í starfseminni er gríðarlegur og landsmenn verða eiginlega bara að hafa þolinmæði fyrir því að hjá okkur er ekkert svart/hvítt, hlutirnir eru ekki í kalda koli eða frábærir, þeir eru flóknari en það, hvoru tveggja og allt þar á milli.
Vissulega er það samt svo að langvarandi undirfjármögnun ógnar getu Landspítala til að sinna hlutverki sínu. Ég veit að margir sjá ofsjónum yfir kostnaðinum við heilbrigðiskerfið og þar eru stærstu tölurnar á Landspítala. Það er líka oft talað um hvað kostnaðurinn við að reka Landspítala sé mikill - og vissulega eru 60 milljarðar króna, en það er sú upphæð sem spítalinn kostaði á árinu 2016, mjög há upphæð. En þá gleymist að meta ávinninginn! Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig það þjóðfélag liti út sem ekki hefði sjúkrahúsþjónustu en það hefur verið metið víða um heim og niðurstaðan er alltaf sú sama: að ábatinn af heilbrigðisþjónustu er alltaf mun meiri en kostnaðurinn sem henni er samfara. - hvað þá í landi eins og Íslandi sem ver tiltölulega litlu fé hlutfallslega til heilbrigðisþjónustunnar.
Auðvitað þýðir gríðarlegt mikilvægi Landspítala fyrir samfélagið samt ekki að það eigi ekki að velta við hverjum steini til að spara. Og það höfum við svo sannarlega gert, ár eftir ár, eins og margoft hefur verið rakið og staðfest, nú síðast í skýrslu sem McKinseyfyrirtækið vann fyrir velferðarráðuneyti og Alþingi.
Annað sem fólk hefur viðrað áhyggjur af er það að spítalinn sé of stór og hafi of mörg verkefni á sínum herðum.
Á þessum nótum er rétt að velta fyrir sér hlutverki Landspítala. Erum við að sinna því eins vel og við getum eða erum við e.t.v. að fást við eitthvað sem við ættum ekki að vera að fást við ?
Hlutverkið er raunar skýrt í lögum. Landspítali er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Við veitum sérhæfðustu sjúkrahúsþjónustuna sem veitt er í landinu, samhliða því að vera héraðssjúkrahús fyrir 210.000 manns á höfuðborgarsvæðinu, samhliða því að við stundum vísindarannsóknir með slíkum hætti að þriðjungur vísindagreina landsins kemur frá spítalanum og samhliða því að annast starfsnám nema í heilbrigðisfræðum, nærri 1.800 manns á síðasta ári.
Okkur starfsfólki Landspítala er fullljóst til hvers er ætlast af okkur og vitum hvað við erum að gera. Ég held því raunar fram að Landspítali hafi aldrei verið öflugri en einmitt núna. Krafturinn í kjarnastarfsemi spítalans, sem m.a. birtist í árangri biðlistaátaksins, sýnir hvers hann er megnugur þegar auðlindir hans í mannafla og tækjum eru nýttar á réttan hátt. Þetta getum við, þetta kunnum við best. Við sinnum líka öllum sem til okkar leita án tillits til aldurs eða uppruna. Það er okkar hlutverk að annast sjúka og það viljum við svo gjarnan gera, hvort heldur sjúklingurinn er níu ára eða níræður. Landspítali sinnir veikum börnum og veikum öldruðum. Og öllum þar á milli. En þegar meðferð er lokið á Landspítala er afar mikilvægt að fólk komist út af spítalanum sem allra fyrst. Þarna, hefur íslenskt samfélag brugðist einum hópi sérstaklega. Á Íslandi viljum við að allir hafi rétt á því að fá þjónustu á sjúkrahúsi þegar þeir þarfnast þess. En allir ættu að sama skapi að hafa rétt á því að komast af sjúkrahúsi þegar þangað er ekki lengur neitt að sækja.
Á Landspítala hefur stundum undanfarið verið rekið þriðja eða fjórða stærsta hjúkrunarheimili landsins og sennilega eitt það sísta. Þar er ekki metnaðarlausu starfsfólki um að kenna heldur hefur spítalinn aldrei verið fjármagnaður til að sinna þessu hlutverki. Í dag, 24. apríl, bíða 95 einstaklingar sem lokið hafa meðferð á Landspítala en gætu útskrifast í kvöld ef samfélagið gæti veitt þeim viðunandi þjónustu. Í staðinn bíða þessir einstaklingar við mismunandi aðstæður úti um allan spítala og hinn kaldi raunveruleiki er sá að fimmtungur þeirra mun látast áður en hjúkrunarrými býðst þeim - ekki vegna þess að þeim sé hætta búin á Landspítala, heldur vegna þess að þetta er fólk sem er komið að leiðarlokum - en það á að fá að eiga sín síðustu augnablik í heimilislegra umhverfi. Í viðbót við þá sem bíða hjúkrunarheimilis þá bíður á fimmta tug eldri borgara á deildum okkar eftir því að komast í endurhæfingu.
Við erum dugleg að taka saman gögn á Landspítala. Við gefum út starfsemistölur ársfjórðungslega og líklega er leitun að þeirri starfsemi þar sem talnagögn eru jafn aðgengileg og nýtanleg og gögnin okkar. Við vitum nákvæmlega hversu margir fóru í aðgerð í morgun, hvað þær kostuðu og hversu margir leituðu til okkar um helgina. Við vitum hversu mörg börn fæddust, hversu margar hjartaþræðingar voru gerðar og hversu margar rannsóknir. Og við vitum hvað allt þetta kostaði og hvað fjárlaganefnd alþingis vill að það kosti.
Þessu get ég romsað upp hér þar til ég verð blár í framan og geri raunar í árlegri rimmu við fjárveitingarvaldið. Árlega fer gríðarlegur tími og orka í átök við ríkisvaldið í tengslum við fjárlagagerð. Við leggjum fram greinargóðar tillögur og athugasemdir við fjárlagafrumvarpið og leggjum fram allra handa gögn eins og enginn sé morgundagurinn. En allt kemur fyrir ekki. Starfsemin er undirfjármögnuð enn eitt árið svo nemur helmingi samanborið við nágrannalönd. Og ég birtist árvisst í öllum fjölmiðlum, jafn fyrirsjáanlega og lúðrasveit á sumardaginn fyrsta, og djöfla yfir landslýð jarðarfararmörsum. Mikið væri gaman að geta verið með léttari sveiflu og geta varið meiri tíma í að benda á eitthvað af þeim fjölmörgu, góðu og fallegu hlutum sem á hverjum degi gerast á okkar ágæta spítala.
Ég vil vera alveg heiðarlegur við ykkur og segi því að ég eiginlega skil bara ekkert í þessu. Hvernig má það vera að vel meinandi stjórnvöld neiti að horfa á blákaldar staðreyndir sem við súmmerum upp með gagnaöflun og upplýsingagjöf. Hvað erum við að gera vitlaust?
Hvernig má þetta vera, þegar það gengur svona vel á Íslandi ?
Sá grunur hefur læðst að mér að kannski séu tölurnar, þegar við ræðum fjármögnun spítalans hreinlega of stórar til að fólk nemi þær. Við tölum um krónur og aura, fjölda og aukningu, álag og áætlanir, töflur og tíðni. En ef sjúklingurinn er í öndvegi af hverju tölum við ekki um hann? Við sem höfum öll verið sjúklingar á þessum blessaða spítala! Og til að koma að því sem sérstaklega brennur á mér í dag: Hvað þýðir það fyrir einstaklinginn sem til okkar leitar að staða aldraðra er með þeim hætti sem við öll vitum og berum sem samfélag sameiginlega ábyrgð á?
Ég skal segja ykkur það því ég veit það og mörg ykkar hér inni vitið það og sjáið á hverjum einasta degi.
Ég ætla að segja ykkur af honum Skarphéðni. Það var ekki hans raunverulega nafn en sagan er raunveruleg með smávægilegum breytingum til að einstaklingurinn þekkist ekki. Skarphéðinn var hraustur karl sem hætti störfum sem rafvirki fyrir 5 árum og átti stutt í 75 ára afmælið. Hann hafði alla sína tíð stundað sína vinnu svikalaust, hann var hress karl sem bjó einn og hafði alltaf gert. Hann átti í blíðu sambandi við fjölskyldu sína sem hann sinnti vel og það var endurgoldið. Svo kom að því að Skarphéðinn þurfti svo mikla aðstoð heima við að ekki var um annað að ræða fyrir hann en að flytjast í þjónustuíbúð. Hann aðlagaðist lífinu í þjónustukjarnanum nokkuð vel og allt í einu átti hann alvöru vinkonu, þá fyrstu á sinni löngu ævi. Birti nú vel yfir okkar manni og um sumarið brá hann undir sig betri fætinum og heimsótti frændfólk sitt í útlöndum. Þar undi hann sér vel um hríð, þar til að hann varð fyrir því óláni að detta og brjóta lærlegg. Hann var fluttur heim til Íslands og til okkar á Landspítala. Það kom í ljós að það gilti um Skarphéðin eins og marga okkar eldri sjúklinga að enda þótt innlagnarástæðan hafi verið brotinn lærleggur var sjúkdómsmyndin flóknari. Fjölkerfavandi hægði verulega á endurhæfingu og smá saman var ljóst að hann myndi ekki snúa aftur í þjónustuíbúðina. Þegar hann hafði dvalið í 3 mánuði á spítalanum fékk hann færni- og heilsumat sem er forsenda þess að hann gat óskað eftir hjúkrunarrými á hjúkrunarheimili hér í borg. Hann og fjölskyldan voru frekar spennt fyrir þessari breytingu. Skarphéðinn var mikil félagsvera og virkt starf með öðru fólki á hjúkrunarheimili þar sem vel væri að honum búið var mjög eftirsóknarvert. Meðferð á bráðadeildinni þar sem hann lá var löngu lokið og dagarnir liðu í hálfgerðu móki, milli sjúkraþjálfunar og annarrar örvunar af hálfu starfsfólks. Skarphéðni fór að leiðast afskaplega og varð í raun dapur. Hann langaði aftur í þjónustuíbúðina, þar sem vinkonan bjó. Það varð ekki og eftir 4 mánuði komst Skarphéðinn loks á öldrunardeild hér á Landspítala. Þar átti hann að bíða þar til hann fengi pláss á hjúkrunarheimili. Það tókst ekki að endurhæfa Skarphéðin hvað sem reynt var. Hann varð sífellt daprari og óviljugri að hreyfa sig. Þegar hann hafði beðið á öldrunardeildinni í 3 mánuði fóru ættingjar hans að taka eftir því að það fór að slá út í fyrir honum. Nokkuð sem fólkið hans kannaðist ekki við. Hann hætti að spyrja um vinkonuna og talaði lítið. Stuttu seinna hætti Skarphéðinn að vilja hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarp, hann sem aldrei hafði misst af fréttatíma. Hann hætti að greina mun dags og nætur og mókti mest allan daginn. Fólkið hans fann að hann var að fjara út og það reyndist raunin. Þegar hann hafði beðið í 5 mánuði á öldrunarlækningadeild eftir hjúkrunarheimili og legið samtals í um 9 mánuði á Landspítala var komið að leiðarlokum og Skarphéðinn lést á sólríkum köldum vetrarmorgni.
Þetta er saga margra. Einn af hverjum fimm sem bíða á Landspítala eftir hjúkrunarheimili látast áður en þangað er komið. Þessi maður lést ekki vegna aðbúnaðar á Landspítala, það var elli kerling sem lagði hann að velli. En lokaskrefin hefðu verið öllum auðveldari og honum meira sæmandi, í faðmi fjölskyldu sinnar á rólegu hjúkrunarheimili.
Einhverjir kunna að túlka athugasemdir okkar á Landspítala um aldraða sem hjá okkur bíða sem merki um að við viljum ekki hugsa um þá. Málið snýst ekki um það enda eru veikir aldraðir okkar stærsti "kúnnahópur". Við sinnum veikum öldruðum. En þegar kemur að því að hinn aldraði er tilbúinn til útskriftar þá á hann að eiga rétt á því að komast af Landspítala og í aðstæður sem eru sniðnar að þörfum hans. Málið snýst þannig um hlutverk Landspítala sem vegna of hægrar uppbyggingar öldrunarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu um árabil þarf að taka að sér að reka ófjármagnað risahjúkrunarheimili. Við blasir að mat ráðuneytisins á þörf fyrir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2022 er 273 rými - umfram þau rými sem nú er í áætlun er að byggja. Samt er það svo að fjölmargir aðilar hafa sérhæft sig í þjónustu við þennan mikilvæga hóp og eru allir tilbúnir til að þjónusta hann. Hjá þeim er aðstaðan, sérþekkingin og getan. En fjármuni vantar. Á sama tíma er verið að nýta hluta af Landspítala - sem á að sinna sérhæfðum og almennum sjúkrahúsverkefnum, vísindum og menntun - sem hjúkrunarheimili - og því fjármagni er ekki vel varið í verkefni sem spítalinn veldur ekki vel og sem hefur hamlandi áhrif á þau verkefni sem okkur eru raunverulega falin og sem við erum skrambi góð í.
Þannig að ég get tekið undir það að spítalinn er að gegna hlutverkum sem hann á ekki að sinna. Og sem aðrir eru betur til þess fallnir að sinna. Það snýst ekki um að flytja flóknar, sérhæfðar skurðaðgerðir út af spítalanum, það snýst um það að byggja upp hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða, mjög hratt og vel, þannig að Landspítali geti sinnt sínu lögbundna hlutverki af sóma og þannig að aldraðir fái það ævikvöld síðasta spölinn sem þeir eiga skilið og eiga rétt á. Þegar ég horfi til framtíðar þá felst lausnin í því að huga að innviðum, að mönnun og að rekstrarfé. En lykillinn að þessu er skýr sýn á hlutverk Landspítala og þar með annarra þátta heilbrigðis- og velferðarkerfisins.
Mig langar að enda á því að segja hversu þakklátur ég er ykkur starfsfólki spítalans. Starfsfólki sem heldur í von og reisn og heldur á kyndli sterkustu gilda íslensks samfélags; náungakærleika, umburðarlyndi og auðmýkt. Starfsfólki sem er snillingar í að mæta fólki þegar því líður sem verst og að umgangast aðra af stakri nærgætni og virðingu þegar þeir þurfa mest á því að halda. Þetta heyri ég alla daga í fjölmörgum, innilegum þakkarbréfum sjúklinga og aðstandenda. Af ykkar þrotlausu vinnu og fordæmi mætti margur læra.
Þakka ykkur innilega fyrir!