Kæra samstarfsfólk - gleðilegt sumar!
Að loknum vetri
Við siglum nú inn í vorið og sumarið eftir viðburðaríkan vetur. Starfsemin hefur einkennst af aukinni eftirspurn eftir þjónustu okkar og miklu álagi á starfsfólk. Ég hef ítrekað gert þetta að umtalsefni hér í þessum pistlum enda flæði sjúklinga eitt stærsta öryggismálið á spítalanum. Nýting spítalans hefur verið langt yfir eðlilegum viðmiðunarmörkum, sem miðast meðal annars við 85% nýtingu bráðalegudeilda - á meðan við höfum séð allt að 150% nýtingu á einstökum einingum. Á sama tíma hefur tekist að ná frábærum árangri á ýmsum sviðum, t.d. í biðlistaátaki vegna liðskiptaaðgerða og fleiri aðgerðaflokka. Þetta endurspeglar þá miklu breidd og fjölbreytni sem er í starfsemi Landspítala og það er afar mikilvægt að við hugsum til þess þegar einstaka fréttir birtast af starfseminni.Ársfundur spítalans
Þessum fjölbreytileika verða gerð skil á ársfundi Landspítala sem haldinn er nú á mánudaginn kemur. Ég hvet ykkur eindregið til að mæta - skráning hér - enda á dagskrá fundarins erindi við okkur öll. Við horfum til framtíðar Landspítala og hlutverks hans. Við starfsfólk spítalans velkjumst reyndar ekki í vafa um hlutverk spítalans, við erum þjóðarsjúkrahús og veitum öllum landsmönnum (og gestum) heilbrigðisþjónustu, erum leiðandi í menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks og þróum nýja þekkingu með vísindastarfi. Allt byggir þetta á öflugum mannauði sem hefur sjúklinginn í öndvegi og um þetta fjallar ársfundurinn.Ríkisfjármálaáætlun
Í umræðu um framtíð Landspítala verður ekki hjá því komist að ræða fjármögnun hans. Í aðdraganda kosninga á síðasta ári lá fyrir að aðal kosningamálið yrði heilbrigðiskerfið og fjármögnun þess. Með nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2018- 2022 hefur ríkisstjórnin sýnt á spilin. Fyrir liggur að nær allt það umtalsvert mikla nýja fjármagn sem ætlað er í heilbrigðisþjónustu á tímabilinu mun koma til á seinni hluta þess og renna að miklu leyti í stofnframkvæmdir. Þegar kemur að rekstri þjónustunnar kveður við annan og öllu kunnuglegri tón. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að Landspítali dragi verulega saman í rekstri á næsta ári. Farið verður nánar yfir þetta á ársfundinum en okkur er óneitanlega talsvert brugðið, í ljósi umræðu í aðdraganda kosninga sem og við gerð fjárlaga. Við vonum að fjármálaáætlunin verði leiðrétt með hliðsjón af raunveruleikanum. Að öðrum kosti er það verkefni okkar næstu vikur og mánuði að draga fram aðgerðir sem geta mætt þessari kröfu ríkisvaldsins.Vífilsstaðir
Að lokum langar mig að taka upp mál varðandi land Vífilsstaða, sem af hálfu Landspítala er lokið en varð umfjöllunarefni fjölmiðla nú í vikunni. Land Vífilsstaða hefur þjónað heilbrigðisþjónustunni í rúm hundrað ár og margir hafa séð fyrir sér framhald á þeirri nýtingu. Um áramótin 2014/2015 kom nokkuð óvænt en eindregin ósk frá fjármálaráðuneytinu um þá ráðstöfun að land Vífilsstaða færi undir Ríkiseignir. Við mótmæltum því en þess ber að gæta að á þessum tíma var enn ákveðin óvissa (m.a. vegna afstöðu þáverandi forsætisráðherra) um það að endurnýjun spítalans yrði við Hringbraut, óvissa sem nú er eytt með skýrum, fastmótuðum og skynsamlegum ákvörðunum um uppbyggingu þar. Hins vegar var aðalástæða athugasemda okkar sú að ef litið er til mannfjöldaspár fram eftir 21. öld þá teljum við skynsamlegt að hafa svigrúm innan marka höfuðborgarsvæðisins til uppbyggingar næstu kynslóðar sjúkrahúsa, sjúkrahúss sem þyrfti að vera risið eftir 40-50 ár. Það er í því ljósi sem við horfðum til Vífilsstaða. Niðurstaðan varð hins vegar sú að ríkið leysti til sín landið og hefur nú ráðstafað því, væntanlega að loknu mati stjórnvalda á því hvaða nýting landsins þjóni best heildarhagsmunum samfélagsins. Um það er ekkert frekar að segja.Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson