Fyrirhugað er að opna á Landspítala nýja deild, greiningardeild, þann 1. júní 2017. Hún verður þar sem nú er bráðalyflækningadeild A2 í Fossvogi sem mun verða stækkuð úr 15 rúmum í 21.
Unnið verður eftir erlendri fyrirmynd MAU (e. Medical Assessment Unit) þar sem sjúklingar með bráð lyflæknisfræðileg vandamál fá þverfaglegt mat og meðferð á innan við 48 klukkustundum. Sjúklingar sem fá þjónustu á greiningardeild koma í gegnum bráðamóttöku eða af göngudeildum spítalans. Þeir sjúklingar sem þurfa á frekara mati og meðferð að halda leggjast inn á viðeigandi legudeild innan spítalans eða verða áfram í meðferð á dag- eða göngudeildum. Aðrir útskrifast heim.
Opnun greiningardeildar er liður í því að bæta flæði á Landspítala, bregðast við gangainnlögnum og flæðisvanda. Með því að koma greiningardeildinni á fót er þess vænst að betur megi tryggja að sjúklingar fái rétta meðferð á réttum tíma, á réttum stað og hjá réttum aðila. Margir vinnuhópar hafa verið að störfum frá því síðastliðið haust við undirbúning deildarinnar.
Greiningardeild heyrir undir almennar lyflækningar. Yfirlæknir almennra lyflækninga er Sigríður Þórdís Valtýsdóttir og deildarstjóri greiningardeildar er María Vigdís Sverrisdóttir. Ragnar Freyr Ingvarsson er umsjónarlæknir greiningardeildar.
Verkefnastjórnun er í höndum Hildar Helgadóttur (hildurhe@landspitali.is) og Steinunnar Ingvarsdóttur (steinuni@landspitali.is) sem veita frekari upplýsingar.