Kæra samstarfsfólk!
Fjármálaráðherra hefur nú lagt fram tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022. Ályktunin hefur stefnumótandi áhrif fyrir gerð fjárlaga næstu ára og að því leyti er hún mikilvæg fyrir stofnanir sem lengi hafa kallað eftir að stefna ríkisins lægi fyrir lengur en eitt ár í senn. Í þeirri tillögu sem nú er lögð fram eru framlög til heilbrigðismála sögð stóraukin og þannig sérstök áhersla lögð á málaflokkinn. Við höfum rýnt áætlunina að því leyti sem hún snýr að Landspítala og er ánægjulegt að sjá áherslu á uppbyggingu spítalans við Hringbraut. Hins vegar er ljóst að hvað reksturinn varðar höfum við áhyggjur og þá sérstaklega þegar litið er til ársins 2018. Við eigum í nánu samtali við heilbrigðisráðherra og ráðuneytið vegna þessa enda ljóst að næstu ár munum við áfram takast á við aukna eftirspurn eftir þjónustu spítalans samhliða uppbyggingarstarfi eftir erfiða tíma í kjölfar hrunsins.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra kom í aðra formlega heimsókn sína á Landspítala í dag. Ráðherra skoðaði nú geðsvið og fræddist um fjölbreytta starfsemi okkar í geðheilbrigðismálum, meðal annars bráðageðdeild, réttar- og öryggisgeðdeild, Laugarásinn, batamiðstöðina og FMB-teymið. Geðheilbrigðismálin eru ofarlega á baugi um þessar mundir en margir hafa vakið athygli á þessum mikilvæga málaflokki og þeirri staðreynd að efla þarf þjónustuna, jafnt á spítalanum sem úti í samfélaginu. Það er ánægjulegt að skynja áhuga ráðherra á geðheilbrigðismálum og vonum við að kné verði látið fylgja kviði.
Landspítali er stærsti vinnustaður landsins en hér starfa ríflega 5.000 manns. Landspítali er háskólasjúkrahús sem nærist á vel menntuðu og frjóu starfsfólki sem sífellt sækir fram á sínu sviði. Það er á enga stétt hallað þó fullyrt sé að hjúkrunarfræðingar séu hryggjarstykkið í starfsemi spítalans. Öllum er ljóst að sjúkrahús verða ekki rekin án hjúkrunarfræðinga og það er okkur mikið áhyggjuefni að hafa ekki tekist að laða nógu marga nýja hjúkrunarfræðinga til starfa hjá okkur. Við deilum reyndar áhyggjum alls hins vestræna heims af hjúkrunarfræðingaskorti sem er veruleg ógn við heilbrigðiskerfin eins og við þekkjum þau. Það er afar mikilvægt að fleiri velji sér þetta mikilvæga starf sem framtíðarverkefni og okkar verkefni að tryggja að Landspítali sé vinnustaður sem hjúkrunarfræðingar sækist eftir að vinna á. Það var því skemmtilegt að sjá glæsilegan fulltrúa hjúkrunarfræðinga á Landspítala, Rögnu Maríu Ragnarsdóttur, segja frá starfi sínu á bráðamóttökunni í þættinum Framapot í Sjónvarpinu.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson