Vistvæn innkaup jukust á Landspítala á árinu 2016. Settar voru kröfur í 14 útboð og 11 verðfyrirspurnir sem leiddu til dæmis til þess að ýmsar vörur eru án PVC, DEHP og latex, allt í senn eða að hluta. Til dæmis eru sogpokar, sogílát, maskar, premicath leggir og leiðarar fyrir vökudeild og armbönd fyrir sjúklinga án PVC.
Dæmi um vörur án latex eru svampfatlar, einnota lín-, hné og mjaðmapakkar, insúlínnálar, sondusprautur og tappar. Latex er þekktur ofnæmisvaldur, DEHP hefur hormónatruflandi áhrif og PVC er plast með ýmsum íblöndunarefnum sem geta haft neikvæð áhrif á umhverfi og heilsu. Því reynir spítalinn að forðast þessi efni sé þess kostur svo dæmi sé tekið, sjá frétt um PVC á vökudeild.
Annað dæmi eru skoðunarhanskar en frá og með 1. júní 2017 verður einungis boðið upp á nítril skoðunarhanska. Landspítali hættir að kaupa skoðunarhanska úr latex og vinyl (PVC). Tilgangurinn er þríþættur:
1. Draga úr öryggisógn vegna óþols/ofnæmis sem latex skoðunarhanskar geta valdið hjá sjúklingum og starfsfólki.
2. Styðja við umhverfisstefnu spítalans og ríkisins með því að hætta notkun vinyl/PVC (innihalda þalöt) sem getur skaðað umhverfi og heilsu.
3. Hagræðing næst vegna einföldunar birgðahalds og stöðlunar vöruúrvals sem aftur leiðir til einfaldari vörustýringar.
Í innkaupum á lækningatækjum eru settar kröfur um orkunýtni og takmörkun hættulegra efna. Við endurnýjun„Skutlunnar“, bíls sem er í ferðum milli Landspítala Fossvogi og Landspítala Hringbraut, voru sett umhverfisskilyrði um sparneytni og útblástur en ekki tókst í það skiptið að fá rafskutlu með nógu mikla drægni.