Kæra samstarfsfólk!
Enn er ástæða til að gera flæðismál spítalans að umtalsefni. Vaxandi þungi hefur lengi verið í álagi á bráðamóttökur og bráðalegudeildir og sérstaklega þungt hefur verið þessar síðustu vikur vetrar, ástand sem ég veit að hefur valdið mörgu starfsfólki áhyggjum. Þessar áhyggjur, sem ég tek undir, eru fyrst og síðast faglegar og snúa að velferð sjúklinga. Við höfum á undanförnum misserum átt í nánu samstarfi við fjölmarga innan og utan spítalans, upplýst ráðamenn vandlega um stöðuna og gripið til aðgerða til að bæta ferla og samstarf við aðrar stofnanir. Engu að síður breytist staðan svo hratt að við erum vart búin að koma umbótaverkefnum af stað áður en ávinningurinn af þeim hverfur vegna vaxandi fjölda þeirra sem þjónustuna þurfa.
Þessi veruleiki er samfélagslegt verkefni sem þarf að leysa með öðrum hætti en að skera frá Landspítala mikilvæga grunnstarfsemi, eins og tilteknar sérhæfðar aðgerðir. Ráðast verður að rót vandans sem er áralangt andvaraleysi okkar sem samfélags gagnvart vaxandi þörfum þeirra sem nú eru orðnir aldraðir. Við sinnum nú stórum árgöngum fólks úr „barnasprengju“ (baby-boom) eftirstríðsáranna og árganganna þar á undan. Þegar samfélagið tók á móti þessum hópum var ráðamönnum ljóst að ráðast þyrfti í mikla uppbyggingu í skólakerfinu til að sinna þeim þokkalega. Nú eru þessir stóru hópar að koma af fullum þunga inn í heilbrigðis- og félagskerfið og þurfa þjónustu. Sumu af henni getum við á Landspítala sinnt og viljum gjarnan en langstærsti hópurinn þarf þjónustu annars staðar. Þetta er verkefni okkar allra og ég veit að málið er nýjum heilbrigðisráðherra hugleikið. Við verðum öll að vinna þetta saman.
Vorið er uppskerutími hér á Landspítala. Við sjáum vísindin í blóma og viðburðadagatal okkar er fullt af spennandi fundum og fræðsluerindum. Ég hvet ykkur til að fylgjast með. Í dag er til að mynda Dagur öldrunarþjónustu og vísindadagur félagsráðgjafa. Framundan eru fjölmargir viðburðir þar sem Vísindi á vordögum ber einna hæst.
Að endingu langar mig til að vekja athygli ykkar á einu af verkfærunum sem við notum til að segja frá starfsemi og mannauði Landspítala. Þetta eru svokallaðar „Mannauðsmínútur“ sem eru vikulegir örþættir eða myndskeið þar sem samskiptadeild Landspítala fjallar um starfsfólk spítalans; jafnt verkefni þess sem og lífið eftir vinnu. Samskiptadeild hefur nú lokið við níu Mannauðsmínútur og afraksturinn er hægt að skoða á Facebook-síðu Landspítala.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson
Enn er ástæða til að gera flæðismál spítalans að umtalsefni. Vaxandi þungi hefur lengi verið í álagi á bráðamóttökur og bráðalegudeildir og sérstaklega þungt hefur verið þessar síðustu vikur vetrar, ástand sem ég veit að hefur valdið mörgu starfsfólki áhyggjum. Þessar áhyggjur, sem ég tek undir, eru fyrst og síðast faglegar og snúa að velferð sjúklinga. Við höfum á undanförnum misserum átt í nánu samstarfi við fjölmarga innan og utan spítalans, upplýst ráðamenn vandlega um stöðuna og gripið til aðgerða til að bæta ferla og samstarf við aðrar stofnanir. Engu að síður breytist staðan svo hratt að við erum vart búin að koma umbótaverkefnum af stað áður en ávinningurinn af þeim hverfur vegna vaxandi fjölda þeirra sem þjónustuna þurfa.
Þessi veruleiki er samfélagslegt verkefni sem þarf að leysa með öðrum hætti en að skera frá Landspítala mikilvæga grunnstarfsemi, eins og tilteknar sérhæfðar aðgerðir. Ráðast verður að rót vandans sem er áralangt andvaraleysi okkar sem samfélags gagnvart vaxandi þörfum þeirra sem nú eru orðnir aldraðir. Við sinnum nú stórum árgöngum fólks úr „barnasprengju“ (baby-boom) eftirstríðsáranna og árganganna þar á undan. Þegar samfélagið tók á móti þessum hópum var ráðamönnum ljóst að ráðast þyrfti í mikla uppbyggingu í skólakerfinu til að sinna þeim þokkalega. Nú eru þessir stóru hópar að koma af fullum þunga inn í heilbrigðis- og félagskerfið og þurfa þjónustu. Sumu af henni getum við á Landspítala sinnt og viljum gjarnan en langstærsti hópurinn þarf þjónustu annars staðar. Þetta er verkefni okkar allra og ég veit að málið er nýjum heilbrigðisráðherra hugleikið. Við verðum öll að vinna þetta saman.
Vorið er uppskerutími hér á Landspítala. Við sjáum vísindin í blóma og viðburðadagatal okkar er fullt af spennandi fundum og fræðsluerindum. Ég hvet ykkur til að fylgjast með. Í dag er til að mynda Dagur öldrunarþjónustu og vísindadagur félagsráðgjafa. Framundan eru fjölmargir viðburðir þar sem Vísindi á vordögum ber einna hæst.
Að endingu langar mig til að vekja athygli ykkar á einu af verkfærunum sem við notum til að segja frá starfsemi og mannauði Landspítala. Þetta eru svokallaðar „Mannauðsmínútur“ sem eru vikulegir örþættir eða myndskeið þar sem samskiptadeild Landspítala fjallar um starfsfólk spítalans; jafnt verkefni þess sem og lífið eftir vinnu. Samskiptadeild hefur nú lokið við níu Mannauðsmínútur og afraksturinn er hægt að skoða á Facebook-síðu Landspítala.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson