Á barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) hefur undanfarin ár verið unnið að því að auka fjölskyldumiðaða þjónustu. Náðst hefur ákveðinn árangur í því að efla fjölskyldumeðferð í bráðaþjónustu en einnig er talin þörf á auknum fjölskyldustuðningi/meðferð á göngudeild til að hjálpa börnum og foreldrum þeirra að takast á við tilfinningasveiflur, sjálfsskaða og vanlíðan.
Kiwanishreyfingin hefur um árabil verið ötull bakhjarl BUGL í því að bæta aðstöðu, efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga á landsbyggðinni og hefur auk þess átt þátt í þróun meðferðarúrræða. Nýlegt 9,5 milljóna króna framlag Kiwanishreyfingarinnar til BUGL stuðlar enn að bættri þjónustu deildarinnar, meðal annars efldri þjónustu í nærumhverfi fólks. Til að geta boðið markvisst upp á slíka meðferð er stefnt að því að fleiri starfsmenn fái þjálfun auk þess sem mikilvægt er talið að auka aðgengi að fjölbreyttu fræðsluefni bæði í formi bæklinga og á vef BUGL.
Eitt af hlutverkum BUGL er að miðla þekkingu til samstarfsstofnana og fagaðila í nærumhverfi barna með fræðsluefni, námskeiðum og þjálfun. Framlag Kiwanishreyfingarinnar fer meðal annars í stuðning við það verkefni. Styrkurinn var afhentur 18. febrúar 2017. Kiwanishreyfingin aflar fjár til geðheilbrigðismála með sölu á K-lyklinum, að jafnaði á þriggja ára fresti.