Ólafur hefur gefið um 90 lítra af blóði og má gera ráð fyrir að hann hafi hjálpað milli tvö og þrjú hundruð manns með gjöfum sínum. Ef hver blóðgjöf tekur að meðaltali um 30 mínútur hefur hann varið að minnsta kosti 100 klukkustundum í Blóðbankanum.
Ólafur Helgi gaf blóð í fyrsta sinn á síðasta ári sínu í Menntaskólanum í Reykjavík þann 19. mars 1972, þá 18 ára að aldri. Síðan hefur hann gefið blóð reglulega og oft haft mikið fyrir því að komast í blóðgjöf. Ólafur var um tíma blóðflögugjafi og kom þá í blóðskiljuvél reglulega. Eftir það hefur ferillinn verið nokkuð samfelldur og það þrátt fyrir 18 ára búsetu á Ísafirði en allar Reykjavíkurferðir voru skipulagðar þannig að nauðsynleg erindi bæði vegna starfa og setu í bæjarstjórn og bæjarráði féllu saman við blóðgjöf nokkurn veginn á þriggja mánaða fresti.
Árið 2002 var Ólafur Helgi kosinn í stjórn Blóðgjafafélags Íslands og tveimur árum síðar sem formaður og því hlutverki gegndi hann í 10 ár, til ársins 2014. Auk þess að vera einn af dyggustu blóðgjöfum Blóðbankans hafa fáir komist með tærnar þar sem Ólafur hefur haft hælana varðandi öflun blóðgjafa. Meðan Ólafur bjó á Selfossi virkjaði hann fjölda fólks til að verða blóðgjafar og voru oft slegin met við blóðsöfnun þar. Eftir að Ólafur fluttist á Suðurnesin hafa þau styrkst og eflst sem blóðsöfnunarstaður og er nú svo komið að þeir sem koma í bílinn í Reykjanesbæ er oft fleiri en á Selfossi.
Blóðbankinn ætlar að heiðra Ólaf sérstaklega að blóðgjöf lokinni, um kl. 11:15.