Kæra samstarfsfólk!
Árangur í biðlistaátaki
Í síðasta pistli ræddi ég um þann mikla slagkraft sem er í starfseminni hjá okkur og hversu fjölbreytt þessi starfsemi er. Sem dæmi þá höfum við af miklum krafti tekið þátt í biðlistaátaki stjórnvalda og á fyrstu mánuðum ársins hefur okkur tekist að fækka sjúklingum á biðlistum eftir aðgerðum hjá okkur um 580 manns. Þetta er frábær árangur og allir sem að koma eiga mikið hrós skilið. Við höldum áfram ótrauð á þessari braut.Blóðskimun og ársfundur
Sem ein öflugasta stofnun landsins er Landspítali einn stærsti bakhjarl vísindarannsókna í landinu í samvinnu við aðra mikilvæga aðila, til dæmis háskólana í landinu. Dæmi um slíkt er þjóðarátak gegn mergæxlum, „Blóðskimun til bjargar“, þar sem styrkur Landspítala og sú mikla þekking sem stofnunin býr yfir skiptir sköpum. Við getum borið höfuðið hátt og rétt er að nota tækifærið og minna á ársfund Landspítala sem haldinn verður 24. apríl næstkomandi. Auk hefðbundinnar ársfundardagskrár verða spennandi vísindaverkefni kynnt og litið á hvernig Landspítali er að þróast sem einn fremsti þekkingarvinnustaður 21. aldar hér á landi.Flæðisvandi er samfélagsvandi
Talandi um breiddina í starfseminni. Fjölbreyttasti og tæknilega flóknasti vinnustaður landsins fæst við margs konar verkefni og er hvorki alslæmur né á hinn bóginn fullkominn. Samhliða framfaraskrefum og sigrum tökum við glímuna við mikið aðflæði sjúklinga sem þurfa á þjónustu okkar að halda. Sömuleiðis tökumst við á við þá áskorun að koma öllum þeim sem ekki lengur þurfa þjónustu okkar við í viðeigandi þjónustufarveg. Þetta hefur verið kallað „flæðisvandi Landspítala“ en er auðvitað ekki vandi Landspítala heldur þess samfélags sem við búum í og snýst um þær aðstæður sem við höfum ákveðið að búa eldra fólki.Slæmur aðbúnaður aldraðra
Vandinn er í grunninn ófullnægjandi aðbúnaður eldra fólks sem þarf stuðning til að búa heima og einnig of fá hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Vegna þessa vanda geta aðstæður til að sinna bráðveikum truflast. Þetta getur gerst þegar bráðamóttökur Landspítala fyllast af fólki og ekki gengur nógu hratt að koma bráðveikum á réttar bráðalegudeildir, þar sem sérhæfð meðferð fer fram, vegna þess að þær deildir eru yfirfullar af fólki sem lokið hefur meðferð. Í vikunni var rúmanýting Landspítala 110%, alls staðar yfir 100% og allt upp í 140% Rétt er að taka fram að við þessar aðstæður leitum við allra leiða til að tryggja öryggi sjúklinga, meðal annars með samstarfi við heilsugæsluna og nágrannasjúkrahúsin. Í sérstökum tilvikum grípur framkvæmdastjórn spítalans til þess ráðs að senda fjölmiðlum tilkynningar um hver staðan er og þegar svo er komið er staðan orðin alvarleg.Löng bið eftir úrræðum
Langflestir þeir sem til okkar leita eru af eldri kynslóðinni og hafa oft mörg vandamál að takast á við. Á bráðamóttökunni er vandinn greindur og meðferð hefst og þarfnist sjúklingurinn innlagnar tekur við bið eftir rúmi á þeirri deild sem sérhæfir sig í þeim vanda sem við er glímt. Þegar þangað er komið heldur meðferð áfram. Þegar henni er lokið er einstaklingurinn - sem ekki er sjúklingur lengur - tilbúinn til útskriftar af bráðasjúkrahúsi. Hins vegar kann að koma í ljós að viðkomandi geti ekki snúið aftur heim að óbreyttu. Ef ekki tekst að byggja nægilega öfluga þjónustu í kringum hann með hjálp heilsugæslu og heimaþjónustu tekur við löng bið eftir færni- og heilsumati (að meðaltali rúmlega 40 dagar), sem er forsenda þess að einstaklingur geti fengið inni á hjúkrunarheimili. Þá tekur við enn lengri bið eftir hjúkrunarheimilinu sjálfu (nærri 50 dagar að meðaltali). Á meðan halda skiljanlega aðrir sjúklingar áfram að sækja til okkar þjónustu og þeim einstaklingum sem eru í sömu stöðu og sá sem hér er lýst fjölgar stöðugt.Spítalar eru ekki góðir dvalarstaðir
Þegar þetta er er skrifað eru um 100 einstaklingar á Landspítala sem búið er að meta í þörf fyrir hjúkrunarheimili og dveljast þeir einstaklingar við misgóðan kost hjá okkur, þótt við sannarlega leggjum okkur fram við að veita fólki sem besta hjúkrunarþjónustu. Nútíma sjúkrahús eru hins vegar með sínum hraða og erli ekki hentugur og raunar afleitur staður fyrir þennan viðkvæma hóp, vegna erils, sýkingarhættu - og þess að ólíkt hjúkrunarheimilum þá er spítali ekki heimili fólks og ekki sérútbúinn til að mæta búsetuþörfum aldraðra. Það er verk að vinna fyrir okkar samfélag að finna lausnir á þessum vanda; svo að aldraðir fái viðeigandi þjónustu eins og þeir eiga rétt á og svo að Landspítali fái svigrúm til að sinna þeim verkefnum sem honum ber og hann er skipulagður til að sinna.Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson