Kæra samstarfsfólk!
Í lok síðustu viku heimsótti heilbrigðisráðherra, Óttarr Proppé, Landspítala Fossvogi og kynntist fjölbreyttri starfsemi spítalans þar. Ráðherra og föruneyti heimsóttu bráðamóttöku og bráðalegudeildir og kynntu sér sérstaklega flæði sjúklinga. Á gjörgæsludeild tók ráðherra formlega í notkun nýtt vöktunarkerfi við mikla ánægju viðstaddra enda langþráður áfangi í uppbyggingu innviða gjörgæslunnar. Þá heimsótti ráðherra sömuleiðis skurðstofugang í Fossvogi og notaði tækifærið og opnaði þar formlega nýja skurðstofu. Þar er um að ræða skurðstofu sem ætluð er bæklunarskurðlækningum og þriggja ára liðskiptaaðgerðaátaki stjórnvalda sérstaklega.
Þetta var ánægjuleg heimsókn og okkur mikil ánægja að kynna nýjum ráðherra þann kraft sem er í starfseminni hjá okkur, þótt stundum blási um. Það eru raunar mikilvæg skilaboð til allra - Landspítali er stór stofnun og starfsemin yfirgripsmikil. Þegar við bætist að hlutverkið er að vera ein grunnstoða samfélagsins vekja allar neikvæðar fréttir mikla athygli. Því miður mætti stundum af þeim ætla að hér væri alltaf allt á heljarþröm en við sem hér störfum vitum að svo er ekki. Hér er gríðarlega öflug starfsemi og mikill slagkraftur í fjölbreyttri starfsemi sem sjaldan eða aldrei kemst í kastljós fjölmiðla. Það er raunar ekki markmið okkar að vera sífellt þar, okkur er mikilvægast að þeir sem til okkar leita og fjölskyldur þeirra skynji að við völdum þeim verkum sem okkur eru falin og vel það.
Við erum hins vegar fjarri því að vera ein á þessum báti - vel flestir stórir spítalar í Evrópu glíma við sambærileg verkefni, sama vanda en þeir vinna líka sömu sigra. Þessa fyrstu mánuði ársins hafa borist fréttir frá Svíþjóð, Frakklandi, Danmörku og Bretlandi sem allar eru á svipaða lund og hjá okkur - inflúensufaraldrar, innlagnakrísur, peningaskortur og svo framvegis. Í síðasta mánuði sýndi BBC afar áhugaverða þáttaröð um St. Mary´s sjúkrahúsið í London (Þáttur 1 - Þáttur 2). Alls er um að ræða 6 glænýja þætti sem varpa ljósi á verkefni sem við hér á Landspítala þekkjum rækilega af eigin raun. Þættirnir eru frábærir og lýsa vel sorgum og sigrum starfsfólks og sjúklinga og ættingjum þeirra. Ég hvet ykkur til að líta á þessa þætti - ef tími gefst!
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson