Vefurinn www.lyfjaskil.is var formlega opnaður fimmtudaginn 2. mars 2017 á vegum Lyfjastofnunar og með þátttöku fjölmargra annarra, þar á meðal sjúkrahúsapóteks Landspítala og eitrunarmiðstöðvar spítalans. Verkefnið nýtur stuðnings Lyfjafræðingafélags Íslands og velferðarráðuneytis.
Niðurstöður könnunar sem gerð var fyrir Lyfjastofnun gefa til kynna að geymslu lyfja á íslenskum heimilum sé víða ábótavant. Það þurfi að hvetja almenning til að skila fyrndum lyfjum til eyðingar í apóteki og fræða um örugga geymslu lyfja á heimilum. Þetta helst í hendur við tölur frá eitrunarmiðstöð Landspítala um fjölda fyrirspurna vegna lyfjaeitrana.
Dagana 2. til 10. mars stendur Lyfjastofnun fyrir átaksverkefninu Lyfjaskil – taktu til! sem er ætlað að vekja athygli á þessum vanda og almenning til vitundar.
Í tengslum við átaksverkefnið er vefurinn opnaður en á honum er hægt að fá ráð um geymslu lyfja á heimilum og hvernig á að bera sig að við tiltekt í lyfjaskápnum.