Kæra samstarfsfólk!
Þótt veðrið í dag sé ekki vorlegt þá leyfi ég mér, úr því að Góa er hafin, að horfa í þessum pistli til gróskunnar í starfsemi Landspítala. Vorið er raunar bæði vaxtar- og uppskerutími hjá okkur á Landspítala.
Þannig má segja að fyrsti hefðbundni vorboðinn sé Bráðadagurinn sem verður haldinn eftir rétta viku. Að þessu sinni er Bráðadagurinn helgaður nýsköpun í bráðaþjónustu og er dagskráin að vanda afar metnaðarfull. Fyrirlesarar eru bæði innlendir sem erlendir og erindi þeirra fjalla um rannsóknir og verkefni sem tengjast bráðaþjónustu og því má segja að hér sé um sannkallaða uppskeruhátíð að ræða. Það er flæðisvið sem á veg og vanda að Bráðadeginum en efnistökin eru með þeim hætti að dagskráin á erindi við velflesta starfsmenn Landspítala. Bráðadaginn sækja einnig ýmsir fagaaðilar utan Landspítala sem tengjast bráðaþjónustu og er mikilvægur liður í símenntun margra. Ánægjulegt er að dagskráin hefst á sérstakri málstofu í tilefni þess að dr. Brynjólfur Mogensen var nýlega skipaður prófessor í bráðalækningum en hann er fyrstur manna til að gegna þeirri stöðu. Sjá nánar myndskeið með viðtali við dr. Brynjólf og dr. Þórdísi Katrínu Þorsteinsdóttur, formann undirbúningsnefndar Bráðadags.
Framundan eru svo fleiri viðburðir, s.s. Næringardagur Landspítala og auðvitað Vísindi á vordögum í maí sem auglýst verða síðar.
Þrátt fyrir að einhverjir kynnu að ætla annað, í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar um spítalann, er heilmargt spennandi að gerast og framþróun á ýmsum sviðum mikil. Við erum nú að hefja innleiðingu nýs skráningarkerfis fyrir gjörgæsludeildir sem leysa mun af hólmi pappírsskráningu flókinna gagna. Gjörgæslumeðferð er tæknilega sú flóknasta sem háskólasjúkrahús veitir og krefst söfnunar mikilla gagna, t.d. úr lyfjadælum, öndunarvélum, lífsmarka o.s.frv. Með hinu nýja gagnasöfnunarkerfi sameinast upplýsingar úr flóknum tæknibúnaði sem veitir starfsfólki okkar betra yfirlit yfir þá meðferð sem verið er að veita. Fyrir háskólasjúkrahús, eins og Landspítala, er ekki síður mikilvægt að með kerfinu opnast möguleikar okkar til að taka þátt í fjölþjóðlegri vísindastarfsemi og bera gæði meðferðar sem við veitum saman við önnur sjúkrahús. Hér er því um mikilvæga framþróun í þjónustu við sjúklinga að ræða og nýtist auðvitað fyrst og fremst þeim, enda eykur nákvæm skráning og eftirlit öryggi þeirra.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson