Landspítali er að taka í notkun nýtt tölvukerfi fyrir gjörgæslu, svæfingu og vökudeild sem safnar sjálfvirkt gögnum úr ýmsum tækjum tengdum sjúklingum. Samningur um kaup á þessum búnaði var undirritaður 11. ágúst 2016 í kjölfar útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu. Fyrir valinu varð gjörgæslukerfið CIS frá danska fyrirtækinu Daintel.
Tölvukerfið nýja mun gjörbylta allri skráningu á viðkomandi deildum. Með CIS er stigið stórt skref að því takmarki að hætta handskráningu á pappír á deildum Landspítala. Kerfið tengist nánast öllum þeim lækningatækjum sem notuð eru á þessum deildum og safnar upplýsingum úr þeim sjálfkrafa. Með nýja kerfinu verður úrvinnsla gagna um meðferð sjúklinga öll mun auðveldari.
Keyptur var mjög öflugur vélbúnaður sem er nauðsynlegur fyrir kerfi sem safnar svo miklu af gögnum. Vinnustöð er við hvert sjúkrarúm sem birtir allar upplýsingar um viðkomandi sjúkling.
Umtalsverð vinna starfsmanna Landspítala liggur að baki þessum áfanga og hefur stór hópur komið að henni. Kerfið eykur öryggi sjúklinga og auðveldara verður að bera saman gjörgæslumeðferð við önnur lönd.
Viðmælendur.
Alma D. Möller, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs
Kristinn Sigvaldason, yfirlæknir gjörgæslu á Landspítala Fossvogi
Katrín Þormar, starfandi yfirlæknir gjörgæslu- og svæfingalækninga í Fossvogi
Árni Már Haraldsson, deildarstjóri gjörgæslu á Landspítala Hringbraut