Kæra samstarfsfólk!
Landspítali er öflugasta stofnun landsins og krafturinn í starfseminni á mörgum sviðum er magnaður. Við erum vel meðvituð um lykilhlutverk okkar sem þjóðarsjúkrahús og starfsemi okkar er viðamikil. Margt fer fram „á bak við tjöldin“ og fólk leiðir ef til vill ekki hugann að umfangsmikilli starfsemi stoðsviðanna sem halda klínískri starfsemi gangandi. Mig langar til að gera tvær slíkar mikilvægar einingar að umfjöllunarefni í dag.
Rekstrarsvið spítalans hefur haft forystu um afar metnaðarfulla umhverfisstefnu sem athygli hefur vakið víða. Umhverfisáhrif Landspítala eru mikil en ég er afskaplega stoltur af þeirri vinnu sem fram hefur farið frá árinu 2012 þar sem markvisst hefur verið unnið að því að bæta umhverfismál spítalans. Eldhús og matsalir okkar eru Svansvottaðir, við gerum samgöngusamninga við starfsfólk, gerum ýmsar kröfur í innkaupum með umhverfismál í huga, vinnum að bættri aðstöðu fyrir hjólafólk og svo mætti lengi telja. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið í ýmsu umhverfislegu tilliti, til dæmis um að ná að flokka 30% úrgangs og því markmiði náðum við um daginn. Af öllu þessu má ráða að áhugi og vilji er mikill í umhverfismálum á Landspítala og árangurinn sýnilegur.
Fyrir þetta öfluga starf hlaut Landspítali viðurkenninguna „Sustainable Healthcare Organizer of the year 2017“ í Stokkhólmi nú í vikunni á ráðstefnu á vegum útgáfunnar Aktuell hållbarhet og Nordic Center for Sustainable Healthcare. Í umsögninni kemur fram að stærðin er ekki alltaf forsenda góðs árangurs og það sýnir Landspítali. Að ýmsu leyti eru aðstæður hér erfiðari en á hinum Norðurlandanna en þrátt fyrir það er spítalinn með umhverfisstarf í heimsklassa sem er í stöðugum vexti. Viðurkenningin er mikill heiður og hvetur okkur til áframhaldandi góðra verka. Framundan er vinna við loftslagsmarkmið spítalans, að minnka notkun á einnota umbúðum, að minnka matarsóun og byggja nýjan vistvænan spítala. Á Facebooksíðunni „Umhverfismál Landspítala“ getið þið fylgst með árangri okkar og góðum verkum starfsmanna. Ég óska okkur öllum til hamingju með þetta en auðvitað sérstaklega eldhugunum sem leiða þetta frábæra starf.
Nútíma sjúkrahús eru afar háð tækni og góðu verkviti á því sviði. Tölvukerfin sem við notum hlaupa á tugum og viðhald þeirra kallar á mjög fært og lipurt tæknifólk. Í vikunni fór fram afar mikilvægur og tímabær flutningur gagnaþjóna úr úr sér gengnu húsnæði í Birkiborg í öruggara umhverfi í Fossvogi. Þetta var flókin aðgerð sem kallaði á mikla samhæfingu starfsfólks heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar (HUT) og klínískra deilda. Aðgerðin var vandlega undirbúin og vel kynnt en það var ekki laust við að margir bæru kvíðboga fyrir þessu enda álagið mikið á spítalanum þessar vikurnar og við reiðum okkur á mikilvæg kerfi sem taka þurfti niður á meðan á flutningi stóð. Það var hins vegar ekki óhætt að bíða með þessa aðgerð og því var ráðist í hana síðdegis á þriðjudegi og allar deildir drógu fram viðbragðsbúnað sinn til að allt gengi sem best. Það er skemmst frá því að segja að þetta tókst afar vel og er þar að þakka frábærum undirbúningi okkar færa tæknifóks á HUT auk snöfurmannlegra vinnubragða sem urðu til þess að þetta tók styttri tíma en áætlað var. Frábær vinna og kerfin okkar eru nú öruggari og þar með sjúklingar okkar líka.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson