Kæra samstarfsfólk!
Flestum sem eitthvað hafa haft af heilbrigðismálum að segja er ljóst að hér, eins og víðast annars staðar, eru fyrstu vikur og mánuðir ársins miklir álagstímar. Sambærilegar fréttir berast frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi, svo dæmi sé nefnt. Þar sem um árvissan álagstopp er að ræða væri auðvitað æskilegast að spítalinn væri í stakk búinn að bregðast við með viðeigandi hætti. Margt er á færi okkar sem stýrum og störfum á Landspítala og fjölmargt sem við höfum gert til að liðka fyrir eðlilegu flæði sjúklinga og margt er í pípunum. Annað er ekki á okkar hendi að stýra og lýtur það einkum að aðbúnaði við aldraða sem lokið hafa meðferð á Landspítala. Þar er mikilvægt að við öll tökum höndum saman. Ábyrgðina gagnvart úrlausnum berum við öll; starfsfólk Landspítala, ættingjar, eftirlitsstofnanir, stjórnsýslustofnanir og stjórnmálamenn. Höfum í huga, um leið og við flettum í gegnum svartar skýrslur um starfsemi umönnunarstofnana liðinna tíma, hvernig framtíðarskýrslur gætu litið út um nútímann. Langvarandi vanræksla við uppbyggingu innviða, undirmönnun og skortur á fjárveitingum í mikilvæga málaflokka er nær okkur í tíma en við stundum viljum kannast við. Þar er verið að blása til sóknar og er það tímabært.
Þegar álagið verður sem mest þá er mikilvægt að við sýnum yfirvegun. Það dugir hvorki að mála stöðuna of dökkum litum né afneita staðreyndum. Minnumst þess að Landspítali er öflugri og getur tekist á við stærri og flóknari verkefni en nokkurn tíma áður í sögu sinni.
Það er mikill metnaður í starfseminni á Landspítala og það var því algerlega kinnroðalaust sem við tókum þátt í Framadögum í Háskólanum í Reykjavík í vikunni. Við höfum frá árinu 2013 átt í nánu samstarfi við HR um heilbrigðistæknisetur og það er gaman að hitta ungt fólk úr HR, HÍ og víðar sem mörgu kemur á óvart hversu fjölbreytt starfstækifærin á Landspítala eru. Sjá frétt og myndskeið.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson