Kæra samstarfsfólk!
I
Þrekvirki hefur verið unnið í uppbyggingu hermikennslu á Landspítala og í Háskóla Íslands undanfarin misseri. Fé hefur verið sett í uppbyggingu hermisetra, bæði í aðstöðu spítalans í Ármúla sem og í húsnæði HÍ í Eirbergi og hefur þar munað mikið um góðar gjafir. Þó er enn mikilvægari sú áhersla sem við leggjum á að bæta öryggi sjúklinga með markvissri kennslu og þjálfun nema og starfsfólks í öruggu umhverfi. Mig langar sérstaklega til að nefna þverfaglega hermikennslu á Landspítala sem miðar að því að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í teymisvinnu. Hér er líkt eftir raunveruleikanum og eru teymin samsett af bæði af reyndu starfsfólki sem og nýútskrifuðum. Margs konar atriði eru æfð sem öll miða að auknu öryggi sjúklingsins. Viðmælendur í myndskeiðinu sem fylgir hér með eru Marta Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri og Inga Sif Ólafsdóttir kennslustjóri í almennum lyflækningum. Tryggvi Hjörtur Oddsson hjúkrunarfræðingur og Bára Dís Benediktsdóttir læknir segja einnig af námskeiðsreynslu sinni. Einnig er hér tengill á gott viðtal við Ölmu D. Möller svæfingalækni og framkvæmdastjóra aðgerðasviðs spítalans sem birtist í Læknablaðinu á síðasta ári
II
Landspítali er ein öflugasta vísindastofnun þjóðarinnar, þótt við teljum að miklu betur mætti samt búa að vísindum á spítalanum með aukinni fjármögnun. Dæmi um framúrskarandi vísindastarf sem byggir á sérstöðu Íslands en einnig fjölþjóðlegu samstarfi er vinna teymis undir stjórn prófessoranna og yfirlæknanna Ásgeirs Haraldssonar barnalæknis og Karls G. Kristinssonar sýklafræðings auk Helgu Erlendsdóttur lífeindafræðings og prófessors. Fjölónæmar bakteríur eða pneumokokkar geta valdið alvarlegum sýkingum eins og heilahimnubólgu og lungnabólgu, ásamt blóðsýkingu, eyrnabólgu og kinnholubólgu. Bólusetningar gegn bakteríunum hófust í nágrannalöndum Íslands fyrir rúmum áratug en upptaka bóluefnisins tafðist á Íslandi vegna efnahagskreppunnar. Árið 2011 var bólusetningum gegn pneumókokkum bætt við ungbarnabólusetningar á Íslandi. Þær gleðifréttir hafa nú borist að fyrrnefndar sýkingar eru á miklu undanhaldi hér á landi eftir að farið var að bólusetja börn gegn þeim. Vonast er til að röraísetningum í eyru barna fækki og sýklalyfjanokun minnki í kjölfarið, sem er meiriháttar öryggismál fyrir þá sem virkilega þurfa á sýklalyfjum að halda. Rannsókn á áhrifum bólusetningarinnar hefur staðið yfir frá 2011.
Mörg önnur spennandi verkefni eru í farvatninu. Þannig má m.a. nefna það að nú hafa 63 þúsund manns skráð sig í blóðskimun vegna átaks gegn mergæxlum. Um afar spennandi og mikilvægt vísindaverkefni er að ræða, verkefni undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, sérfræðilæknis í blóðmeinafræði á Landspítala og prófessors við Háskóla Íslands en auk hans kemur fjölmargt framúrskarandi starfsfólk beggja stofnana að verkefninu.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson