Málþing verður 9. febrúar 2017 á 100 ára fæðingarafmæli Guðmundar Björnssonar augnlæknis og prófessors við Háskóla Íslands.
Málþingið verður í Hringsal á Landspítala Hringbraut milli kl. 16:30 og 18:00.
Boðið verður upp á kaffi og konfekt eftir fundinn.
Allir eru velkomnir.
Dagskrá
1. Æviferill og störf: Gunnar Guðmundsson2. Skurðlæknirinn: Jóhann Marínósson
3. Samstarfsmaðurinn: Guðmundur Viggósson
4. Kennarinn: Haraldur Sigurðsson
5. Sagnfræðingurinn: Gunnar Guðmundsson
6. Áhrif Guðmundar á augnlækningar á Íslandi: Friðbert Jónasson
Guðmundur Björnsson fæddist í Urriðakoti í Garðahreppi 9. febrúar 1917. Hann ólst upp í Urriðakoti og síðar Hafnarfirði og lauk stúdentsprófi frá MR 1937 og læknaprófi frá HÍ 1944. Þá lá leiðin í sérnám í augnlækningum í Bandaríkjunum. Hann var starfandi augnlæknir í Reykjavík frá júní 1948 til maí 1989. Hann starfaði í fyrstu á Hvítabandinu en frá 1969 á Landakoti þar sem hann var yfirlæknir frá janúar 1972 til desember 1987. Auk þess rak hann stofu í Lækjargötu og Domus Medica og loks á Öldugötu. Guðmundur fór reglulega í augnlækningaferðir um Vesturland. Hann kom á fót göngudeild fyrir glákusjúklinga á Öldugötu, skipulagði vaktþjónustu augnlækna og var einn aðalhvatamaður að stofnun Sjónstöðvar Íslands. Guðmundur kenndi augnsjúkdómafræði við læknadeild Háskóla Íslands fyrst sem dósent frá nóvember 1973 og prófessor frá febrúar 1979 til desember 1987. Guðmundur tók þátt í margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum og má þar nefna stjórn Læknafélags Reykjavíkur, Nesstofu hf., Domus Medica og Augnlæknafélag Íslands. Guðmundur var mikilvirkur í rannsóknum og skrifum. Hann varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands 1967 og fjallaði hún um gláku á Íslandi. Hann var meðritstjóri norræna augnlækningatímaritsins 1974 til 1987. Guðmundur skráði sögu augnlækninga á Íslandi til 1987 og kom hún út 2001. Hann var félagi í Vísindafélagi Íslendinga og heiðursfélagi Augnlæknafélags Íslands. Hann var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 1982.
Guðmundur Björnsson lést 10 apríl 2001.