Tilgangur stefnu og starfsáætlunar Landspítala er að setja markmið spítalans skýrt fram og vera starfsfólki vegvísir í daglegum störfum. Af þessu tilefni hefur nú verið opnaður sérstakur vefur sem er helgaður stefnu og starfsáætlun Landspítala.
Smelltu hér til að skoða vefinn og kynna þér lykiláherslur og árangursvísa Landspítala fyrir árið 2017.
Nýi vefurinn er hluti af innleiðingu nýrrar stefnu og starfsáætlunar fyrir Landspítala. Um er að ræða umfangsmikið ferli sem var opið öllu starfsfólki og hartnær 400 manns hafa tekið þátt í. Frá 2015 hafa verið haldnar fjölmargar vinnustofur með starfsfólki og síðastliðið haust voru enn fremur haldnir þrír stefnufundir sem skiluðu afar mikilvægu innleggi.
Í starfsáætlun Landspítala fyrir hvert ár eru lagðar línur um hvernig spítalinn hyggst ná markmiðum stefnu. Sjúklingurinn er í öndvegi á Landspítala og allar aðgerðir endurspegla það. Af sömu ástæðu er lögð þung áhersla á mannauð, menntun og vísindastarf. Lykiláherslur Landspítala lúta að öryggismenningu, þjónustu, mannauði og stöðugum umbótum. Síðastnefnda atriðið er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að hagkvæmum rekstri þar sem leitast er við að lágmarka sóun.
Benedikt Olgeirsson, framkvæmdastjóri þróunar, Páll Matthíasson forstjóri og Lilja Stefánsdóttir ,framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs, fara stuttlega yfir þessi mál í meðfylgjandi myndskeiði og segja þar frá stefnu og starfsáætlun Landspítala 2017.