Sjúkrahúsapótekið var fært frá flæðisviði yfir á fjármálasvið 1. janúar 2017, samkvæmt ákvörðun forstjóra Landspítala.
Starfsfólk fjármálasviðs og apóteks hefur um árabil átt í góðu samstarfi m.a. um innkaup á lyfjum, áætlanagerð og greiningar á lyfjanotkun, birgðastýringu og aðra fjárhagslega ferla sem tengjast lyfjum. Á Landspítala er verið að kalla eftir uppbyggingu á klínískri lyfjafræði sem krefst bæði þekkingar á lyfja- og fjármálum. Til að koma til móts við þessar þarfir var ákveðið að hefja á spítalanum starfsnám í klínískri lyfjafræði. Þetta er þriggja ára starfsnám í samvinnu við Royal Pharmaceutical Society sem lýkur með meistaraprófi og fer fram í sjúkrahúsapótekinu.
Með þessari skipulagsbreytingu er ætlunin að styrkja apótekið í þáttum sem lúta að vörustýringu lyfja og öðrum fjárhagslegum ferlum og tengja fjármálasviðið enn betur beint við klíníkina í gegnum fjölbreytta starfsemi apóteksins í sjúklingatengdum verkefnum. Með þessari tilfærslu verður til stærri og öflugri eining sem gegnir lykilhlutverki í þjónustu við sjúklinga spítalans.