Kæra samstarfsfólk!
Eins og komið hefur fram í fréttum síðustu daga þá hafa forsvarsmenn Klíníkurinnar í Ármúla stigið fram og fagnað því að Embætti landlæknis hafi staðfest að fyrirhugaður rekstur þeirra uppfylli faglegar kröfur. Áhugi rekstraraðilanna er á bæklunaraðgerðum, sem fram til þessa hafa verið framkvæmdar á Landspítala og fleiri sjúkrahúsum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að ekki hefur verið samið um málið. Ég veit að þetta mál veldur mörgum okkar áhyggjum og vil því aðeins gera það að umtalsefni í þessum pistli.
Landspítali á í ágætu samstarfi við ýmsa veitendur einkarekinnar heilbrigðisþjónustu. Við teljum sömuleiðis að hluti þeirrar starfsemi sem nú er á Landspítala væri betur kominn annars staðar og horfum þá meðal annars til hjúkrunarþjónustu við aldraða. Við höfum átt í samræðum við ýmsa vegna þessa enda samráð forsenda góðs samstarfs. Það hefur hins vegar ekkert samtal átt sér stað um liðskiptaaðgerðir úti í bæ enda höfum við ekki beðið um utanaðkomandi aðstoð á því sviði. Við myndum raunar gjarnan vilja setja meiri kraft í slíkar aðgerðir hjá Landspítala því bið eftir þeim getur verið þungbær.
En málið er flóknara en svo að einungis verði horft til einstakra aðgerðaflokka. Þótt fjölbreytt rekstrarform kunni að henta erlendis verður að hafa í huga að við Íslendingar erum fámenn þjóð og það að dreifa mjög sérhæfðri þjónustu víða er óhagkvæmt. Yrði af þessum tilteknu áformum þá myndi það ekki einfalda eða létta undir með rekstri Landspítala, eins og fram er haldið, heldur trufla hann. Einkasjúkrahús sem sinnir einföldum liðskiptaaðgerðum myndi grafa undan fámennri sérgrein sem sinnir sérhæfðum hópi sjúklinga á Landspítala. Flóknari aðgerðir þyrftu áfram að vera á Landspítala en sjúklingar sem á slíkum aðgerðum þurfa að halda myndu fljótt líða fyrir það að bæklunarsérgreinin væri orðin miklu veikari á spítalanum. Sérhæft fagfólk er takmörkuð auðlind í fámenninu hér á landi og það er þegar áskorun að tryggja á viðunandi hátt mönnun og tækni á Landspítala.
Það væri því skammsýni að semja um þennan rekstur og óþarfur kostnaðarauki fyrir skattgreiðendur. Landspítali hefur fulla burði til að sinna liðskiptaaðgerðum og hefur metnað til að gera það áfram í góðri samvinnu við sjúkrahúsin á Akureyri og á Akranesi. Á þeim stofnunum hafa þessar aðgerðir verið sérstök lyftistöng í faglegu starfi. Á einu ári af biðlistaverkefni hefur meðalbiðtími eftir liðskiptaaðgerð í mjöðm og hné styst um helming, úr 16 í 8 mánuði, og á þessu ári höldum við ótrauð áfram að stytta biðlista enn frekar.
Sérstaka athygli hlýtur að vekja að landlæknir telur að um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu sé að ræða og undir það taka forsvarsmenn Klíníkunnar sem og Landspítali hér með. Velferðarráðuneytið velur aftur á móti að leggja annan skilning í þá þjónustu sem hér um ræðir og því staðfesti Embætti landlæknis rekstur Klíníkunnar á grunni þeirrar túlkunar ráðuneytisins að um "starfsstofu" sé að ræða. Embættið mun þrátt fyrir skilning ráðuneytisins líta svo á að um sjúkrahúsþjónustu sé að ræða og haga eftirliti sínu samkvæmt því.
Þrátt fyrir þetta er rétt að minna aftur á að ekki hefur verið samið um þjónustu á borð við liðskiptaðagerðir og mikilvægt að nefna að við slíka samningsgerð þarf að horfa til 40. greinar laga um sjúkratryggingar (112/2008). Lögin kveða skýrt á um það að þegar semja á um einkarekna heilbrigðisþjónustu skuli þess gætt að raska ekki þeirri þjónustu sem fyrir er og veita ber samkvæmt lögum. Í reglugerð ráðuneytisins (510/2010) er svo bætt við að ekki megi í þessu samhengi draga ,,... úr hæfni opinberra stofnana til að veita þjónustu á hagkvæman og öruggan hátt". Við gerum ráð fyrir að áður en málið fer lengra verði álits Landspítala leitað og hef ég þegar átt góð samtöl við nýskipaðan ráðherra heilbrigðismála um málið.
Landspítali tekur á næstunni í fyrsta skipti þátt í árlegri starfsumhverfiskönnun ríkisstofnana sem hefur yfirskriftina „Stofnun ársins“. Niðurstöður könnunarinnar eru mælikvarði á og samanburður um frammistöðu ríkisstofnana í starfsánægju, stjórnun, starfsanda, jafnrétti, launakjörum, vinnuskilyrðum, sveigjanleika og sjálfstæði í starfi.
Könnunin verður send út á allt starfsfólk núna í lok febrúar og niðurstöður kynntar í maí. Við hjá Landspítala höfum metnað til þess að þetta verði einn besti vinnustaður landsins og mælingar af þessu tagi eru mikilvægur hluti af þeirri vegferð. Við vonumst auðvitað til að sem flest starfsfólk taki þátt því greining á viðhorfi þess til starfsumhverfis okkar er áríðandi þáttur í umbótastarfinu hérna.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson