Kæra samstarfsfólk!
Við höfum undanfarin misseri undirbúið af krafti innleiðingu nýrrar stefnu og starfsáætlunar fyrir Landspítala. Þetta hefur verið skemmtilegt ferli sem stór hópur starfsfólks hefur komið að eða hartnær 400 manns. Frá 2015 hafa þannig fjölmargar vinnustofur verið haldnar með stjórnendum og öðrum starfsfólki. Í haust voru haldnir þrír stefnufundir með almennu starfsfólki spítalans og var innlegg þeirra afar mikilvægt til dýpkunar og auðvitað ekki síður jarðtengingar stefnunnar. Nú kynnum við starfsáætlun spítalans en með henni leggjum við línurnar um það hvernig við ætlum að ná markmiðum stefnunnar. Sjúklingurinn er í öndvegi á Landspítala og allt sem við gerum á að endurspegla það. Þess vegna snúa lykiláherslur okkar að öryggismenningu, þjónustu, mannauði og stöðugum umbótum.
Af þessu tilefni opnum við nú sérstakt vefsvæði sem helgað er stefnu og starfsáætlun Landspítala. Ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur þennan vef. Þarna liggur framtíðin.
Menntun og vísindi eru Landspítala það sama og vatn þyrstum manni. Á síðasta ári voru ríflega 1.800 nemar hjá okkur á ýmsum stigum náms, einkum grunnnáms og fyrst og fremst í heilbrigðisgreinum. En framhaldsmenntun er þó ekki síður mikilvæg og því var ánægjulegt að sjá stofnun framhaldsmenntunarráðs lækna nýlega. Í ráðinu sitja kennslustjórar sérgreina og er þeim ætlað að þróa öfluga kennslu fyrir lækna að loknu grunnámi. Þegar höfum við hafið samstarf við Royal Collage of Physicians og með þeim hætti gert sérnámslæknum kleift að stunda hluta síns náms hér á landi. Sömuleiðis er ánægulegur vaxtarbroddur í þessari vinnu að samstarf við Sjúkrahúsið á Akureyri er með miklum ágætum í þessu efnum.
Við fylgjumst sem fyrr grannt með stigmögnun inflúensu og fleiri umgangspesta. Þar erum við rétt að leggja á brattann eins og sjá má í meðfylgjandi mynd frá Embætti landlæknis. Gera má ráð fyrir áframhaldandi mikilli aðsókn að spítalanum. Síðustu dagar hafa engu að síður gengið vel, enda samstillt átak allra. Ég vil þakka ykkur fyrir það.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson