„Hinn gullni meðalvegur“ var yfirskrift árlegrar ráðstefnu barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) sem var haldin föstudaginn 13. janúar 2017 á Grand Hótel Reykjavík. Að þessu sinni voru samfélagsmiðlar í brennidepli.
Dagskráin var fjölbreytt og aðalfyrirlesarinn, Gwenn S. O´Keeffe, þótti fara á kostum en hún er bandarískur barnalæknir sem hefur sérhæft sig í málum sem varða net- og tölvuleikjanotkun barna. Að auki voru innlendir fyrirlesarar með erindi sem sneru að kvíða og svefni og tengslum við notkun samfélagsmiðla, ofnotkun Netsins auk þess sem fjallað verður um skjánotkun almennt og áhrif hennar á heilbrigði barna og unglinga.
Í meðfylgjandi myndbroti er rætt við Gwenn, Óla Örn Atlason, uppeldis- og menntunarfræðing, Kjartan Ólafsson, lektor og deildarformann félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri, og Guðrúnu Jóhönnu Benediktsdóttur, verkefnastjóra og formann ráðstefnunefndar.