Gefnar hafa verið út alþjóðlegar leiðbeiningar á vegum Evrópusamtaka hjarta- og lungnaskurðlækna (European Association for CardioThoracic surgery (EACTS)) um hvernig hægt sé fyrirbyggja og meðhöndla svokallaðar miðmætissýkingar en þær eru á meðal alvarlegustu sýkinga eftir opnar hjartaaðgerðir. Meðal höfunda þessara leiðbeininga er Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir við Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. EACTS eru stærstu samtök hjartaskurðlækna í heiminum en þetta eru fyrstu evrópsku leiðbeiningar um miðmætissýkingar sem gefnar eru út og tók vinna við gerð þeirra þrjú ár.
Miðmætissýkingar geta verið lífshættulegar, sérstaklega ef sýkingin breiðir úr sér í nálæg líffæri og djúpt í bringubeinið. Í Evrópu og Norður-Ameríku er tíðni þessra sýkinga víðast um 2-4% en hefur verið undir 1% hér á landi um nokkurt skeið, hefur lækkað úr 2,5% á rúmum áratug. Auk þess hefur enginn íslenskur sjúklingur látist úr miðmætissýkingu eftir hjartaðgerð síðan svokölluð sogsvampsmeðferð (negative-pressure suction therapy) var tekin upp hér á landi haustið 2005. Svampi er komið fyrir í sárinu og hann tengdur við sog en við þessar aðstæður er vöxtur baktería heftur, þar sem þær þola illa neikvæðan þrýsting, og sárinu haldið hreinu.
Niðurstöður rannsókna á góðum árangri sogsvampsmeðferðar hér á landi hafa verið birtar í erlendum vísindaritum og þær nýttar í doktorsritgerð við Háskóla Íslands.